Ábyrgð tekin á eigin heilsu

Greinar

Í sjúkdómageira ríkisins er innbyggð verðbólga, sem veldur því, að kostnaður við sjúkdóma eykst hraðar en sem nemur gæðaaukningu þjónustunnar. Gizkað hefur verið á, að innbyggða verðbólgan nemi um 2% á ári. Það er árlegur kostnaðarauki af óbreyttu þjónustustigi.

Verðbólgan stafar af ýmsum ástæðum, en mest af framboði nýrra og dýrari tækja og nýrri og dýrari lyfja. Vegna velferðarstefnunnar hefur hingað til verið talið æskilegt að taka slík tæki og lyf í notkun hér ekki síðar en í ríkjunum, sem við berum okkur saman við.

Við þetta bætist, að stjórnmálamenn setja stundum lög af góðvilja sínum og ráðherrar setja síðan reglugerðir af sama góðvilja. Þessar gerðir víkka sjúkdómaþjónustuna til nýrra sviða og valda erfiðleikum við að gegna fyrri skyldum með svipuðum hætti og áður.

Ennfremur er þjóðin að eldast. Árlega verður hlutfallsleg aukning í hæstu aldursflokkunum, einmitt þeim, sem mest nota sjúkdómaþjónustu hins opinbera. Þessi þáttur á eftir að magnast svo á næstu árum, að ríkið mun ekki lengur geta haldið óbreyttu þjónustustigi.

Í gamla daga neyddist fólk sjálft til að taka ábyrgð á heilsu sinni. Annað hvort var það heilsuhraust eða það dó fyrir aldur fram. Þetta var harður heimur, þar sem hinir fátækustu áttu minnsta möguleika. Velferðarkerfinu var komið á fót til að jafna og bæta stöðuna.

Með velferðarkerfinu hefur sá misskilningur grafið um sig, að ríkið taki ábyrgð á heilsu manna. Þeir geti hagað sér eins og þeim þóknast, drukkið eða reykt, streðað við peninga eða hangið í sjónvarpssófa eða lifað á ruslfæði. Ríkið muni taka ábyrgð á afleiðingunum.

Samt er vitað, að sjúkdómar og slys eru sjálfskaparvíti að hálfu eða meira. Fólk hagar sér á þann hátt, að það verður veikt eða slasast. Það veit í mörgum tilvikum, hvernig það á að haga sér, en gerir það samt ekki. “Það góða, sem ég vil, geri ég ekki”, sagði Páll postuli.

Sumir áhættuþættir eru utan valdsviðs fólks. Okkur er af arfgengum ástæðum mishætt við ýmsum sjúkdómum, svo sem hjartasjúkdómum, krabbameinssjúkdómum og fíknarsjúkdómum. Óviðráðanleg umhverfisáhrif valda ennfremur sumu fólki meiri áhættu en öðru.

Þessir ásköpuðu og ytri áhættuþættir losa fólk ekki við ábyrgðina á eigin heilsu. Þeim mun veikari, sem staða fólks er gagnvart slíkum áhættuþáttum, þeim mun meiri ástæðu hefur það til að taka stjórn mála í eigin hendur og haga sér í samræmi við áhættuna.

Það er einkum þrennt, sem fólk getur gert til að taka ábyrgð á heilsu sinni. Það getur tekið upp hollt mataræði. Það getur stundað einfaldar og ódýrar íþróttir á borð við göngu, hlaup, sund eða hjólreiðar. Og það getur gefið sér góðan svefn og stundað slökun huga og líkama.

Mikilvægi þessa mun aukast hratt á næstu árum, því að sjúkdómakerfi ríkisins er í þann mund að springa. Ríkið treystir sér ekki lengur til að taka ábyrgð á heilsu manna. Það er farið að spara í sjúkdómageiranum og á eftir að reyna að spara miklu meira á næstu árum.

Fólk verður að reikna með, að ríkið geti ekki aukið kostnað sjúkdómageirans umfram aukningu þjóðartekna. Vegna áðurnefndrar verðbólgu í geiranum mun sjúkdómaþjónusta ríkisins fara minnkandi á næstu árum, fyrst í stað hægt, en síðan hraðar og hraðar.

Eina vörn fólks er að taka áskoruninni, sem felst í nútímaþekkingu á heilbrigðu lífi. Fólk getur tekið ábyrgð á eigin heilsu og er í auknum mæli farið að gera það.

Jónas Kristjánsson

DV