Sigla þöndum seglum

Greinar

Flest teikn eru hagstæð okkur í efnahagsmálum, þótt víða leynist hættur. Kjarasamningarnir í vetur hafa farið vel í atvinnulífið og ekki leitt til teljandi verðbólgu í afurðum þess. Það bendir til, að samkeppni sé töluverð á markaðnum, þrátt fyrir fákeppni á ýmsum sviðum.

Verðbólgan verður samt nokkru meiri á þessu ári en var í fyrra og meiri en Seðlabankinn heldur. Nýjustu verðbólgutölur eru óeðlilega lágar vegna skammtíma verðlækkunar á grænmeti, sem á eftir að ganga til baka, og vegna einnota lækkunar á innlendum flugfargjöldum.

Verðbólguhraðinn um þessar mundir er því nær þremur prósentum en þeim tveimur prósentum, sem Seðlabankinn heldur. Þetta jafngildir því, að verðbólguástandið hér sé ekki með því bezta á Vesturlöndum, heldur séum við þar í miðjum flokki skussanna.

Mikilvægt er, að áfram verði dregið úr verðbólgu hér á landi, svo að hún haldist til langs tíma við 2% markið. Þetta þarf að gera við skilyrði, er sumpart hvetja til verðbólgu, svo sem vaxandi atvinna í kjölfar góðra aflabragða og samninga um virkjanir og stóriðju.

Samningar vetrarins um virkjanir og stóriðju eru úti á yztu nöf jafnvægis. Þótt slík iðja veiti í rekstri tiltölulega litla atvinnu í hlutfalli við fjárfestingu, veldur hún mjög mikilli atvinnuþenslu á byggingartímanum. Hún er þess vegna sveiflumagnandi þáttur í efnahagslífinu.

Óráðlegt er því að fara hratt í frekari stóriðjusamninga. Við hvern slíkan samning þarf að huga vel að áhrifum hans á hagsveiflur og verðbólgu. Þess vegna verður ekki endalaust unnt að byggja hagvöxtinn á eins konar sífelldum happdrættisvinningum af slíku tagi.

Við það bætist, að við erum í vondum málum vegna Ríó-samningsins um takmörkun mengunar. Við höfum þegar farið hátt yfir mengunarmörk samningsins og munum gera það enn frekar, ef við sjáum ekkert annað en stóriðjulausnir í efnahagsmálum okkar.

Á sama tíma hafa stjórnvöld enn ekki lyft litla fingri til að framkvæma eigin stefnuskrá frá því í fyrra á sviði tölvumála, þar sem gert var ráð fyrir að búa til hagstæð uppvaxtarskilyrði mengunarlausra tölvu- og hugbúnaðarfyrirtækja. Á því sviði eru vannýttir möguleikar.

Hagvöxtur verður líklega á bilinu 3­4% á þessu ári og hinu næsta. Þetta er meiri vöxtur en sem nemur meðaltali aðildarríkja Efnahagsþróunar-stofnunarinnar. Hann bætir fyrir það ástand, sem var fram eftir þessum áratug, þegar hagvöxtur var hér minni en annars staðar.

Afkoma ríkissjóðs er svo góð á þessu ári, að hugsanlegt er, að hagnaður verði, þegar upp er staðið. Það eru óvenjulegar fréttir og merkilegar. Neikvæða hliðin er svo, að afkoman byggist á óeðlilega miklum innflutningi og geigvænlegum halla utanríkisviðskipta.

Hagstaða okkar er að öllu samanlögðu nokkuð góð. Víða leynast hættur og sumir þættir eru neikvæðir, svo sem vöruskiptajöfnuðurinn, þótt aðrir séu jákvæðir. Einhæfni atvinnulífsins er lakasti þátturinn, enda sjá stjórnvöld enn lítið annað en sjávarútveg og stóriðju.

Jákvæðu þættirnir felast einkum í nýjum kjarasamningum til langs tíma og lágri verðbólgu, traustum hagvexti á allra næstu árum, fullri atvinnu þjóðarinnar og góðri afkomu ríkissjóðs. Jákvæðu þáttunum getur fjölgað, ef áfram lækka hinir háu vextir atvinnulífsins.

Mestu skiptir, að bjartsýni hefur leyst svartsýni af hólmi. Í stað þess að draga saman seglin og verjast áföllum sigla menn þöndum seglum á vit nýrra tækifæra.

Jónas Kristjánsson

DV