Sömu fréttir ­ sama niðurstaða

Greinar

Fátt nýtt hefur komið fram við aðra atrennu Hæstaréttar að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Vitað var um harðræði fangavarða og aðra annmarka fyrri rannsóknar, þegar Hæstiréttur kvað upp þann dóm, sem nú hefur árangurslaust verið reynt að fá tekinn upp að nýju.

Fróðlegt hefði að vísu verið að taka með í reikninginn niðurstöður lygaprófs, sem síðar heimsþekktur sérfræðingur á því sviði lagði fyrir sakborning. Þær voru aldrei lagðar fram sem réttarskjöl, hvorki við flutning málsins á sínum tíma né við flutning upptökumálsins.

Í þetta sinn hafnaði sækjandi upptökumálsins notkun niðurstaðna lygaprófsins sem málsskjals, þegar settur verjandi kerfisins vildi fá að sjá þær. Þannig getur tvískinnungurinn snúist við á löngum tíma eftir þeim hagsmunum, sem hver málsaðili hefur hverju sinni.

Málinu er nú lokið á innlendum vettvangi. Vandséð er, að umboðsmaður Alþingis sjái flöt á afskiptum af því. En leita má frekari réttar út fyrir landsteinana, svo sem töluvert hefur verið gert á síðustu árum, oft með ágætum árangri og vanvirðu fyrir íslenzka réttarkerfið.

Hæstiréttur nýtur af gefnum tilefnum ekki mikillar virðingar, en hún breytist ekki við endurmeðferð hans á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Hæstiréttur hefur löngum stutt kerfið í landinu. Oft hefur hann farið meira offari í ríkisdýrkuninni en einmitt í þessu máli.

Miklu alvarlegri mál eru, hvort dómarar í Hæstarétti geti orðið vanhæfir með pólitískum afskiptum utan vettvangs réttarins og hvort helzti embættismaður réttarkerfisins sé svo fjárhagslega háður öðrum, að hann geti ekki tekið afstöðu til mála, sem varða þessa aðila.

Samkvæmt áliti sérfróðra manna í Danmörku er íslenzka réttarkerfið á hálum ís í alvörumálunum. Ennfremur hefur komið í ljós við meðferð fjölþjóðlegra dómstóla, að úrskurðir Hæstaréttar eru oft óeðlilega hallir undir ríkið og fjandsamlegir réttindum borgaranna.

Einn þekktasti lögmaður landsins hefur raunar ritað bók um Hæstarétt, þar sem hann rekur ýmis dæmi um veikleika réttarins, einkum stuðning hans við hagsmuni ríkisvaldins. Bókin endurspeglar vantrú margra lögmanna á, að rétturinn geti tekið eðlilega á málum.

Ef taka ætti upp öll þau mál, þar sem Hæstiréttur hefur í meira mæli verið á gráu svæðunum og dökkgráu svæðunum heldur en í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, væri ekki annað gert á Íslandi næstu árin. Niðurstaðan yrði þar á ofan alltaf staðfesting fyrri niðurstöðu.

Sem betur fer kemur endanlegt réttlæti okkar að utan eins og margt annað gott. Bruxelles, Strasbourg og Haag hafa tekið við af Niðarósi og Kaupmannahöfn sem verndarborgir litla mannsins á Íslandi, svo er Evrópusambandinu og fjölþjóðasamningum fyrir að þakka.

Hér hafa verið rakin nokkur dæmi um bága siðferðisstöðu íslenzka kerfisins og Hæstaréttar sérstaklega til þess að hafa þau atriði í myndinni, þegar jafnframt er stutt það sjónarmið Hæstaréttar, að ekki sé ástæða til að taka Guðmundar- og Geirfinnsmálið upp að nýju.

Deilan um upptöku málsins byggðist á gömlum lummum, sömu upplýsingunum og voru tiltækar, þegar dómar voru kveðnir upp á sínum tíma. Sumt ungt fólk virðist hins vegar ímynda sér, að í þetta sinn hafi rétturinn verið með nýjar upplýsingar í höndunum.

Hafi þessar upplýsingar leitt Hæstarétt til ákveðinnar niðurstöðu á sínum tíma, er eðlilegt að þessar sömu upplýsingar leiði hann til að hafna upptöku málsins nú.

Jónas Kristjánsson

DV