Nýir og þægir kjaradómsmenn

Greinar

Þegar dómarar í landinu tóku sér ómælda yfirvinnu í orlofi ekki alls fyrir löngu, tók Kjaradómur á því og úrskurðaði, að þetta skyldi ganga til baka. Þetta olli nokkurri gremju dómara Hæstaréttar og hugsuðu þeir þáverandi kjaradómsmönnum þegjandi þörfina.

Þegar kom að nýrri skipan Kjaradóms, rak Hæstiréttur fulltrúa þá, sem hann hafði áður skipað, og setti nýja og þægari í þeirra stað. Niðurstaðan er auðvitað sú, að í hinum nýja og illræmda úrskurði Kjaradóms er hlutur dómara gerður betri en annarra yfirstéttarmanna.

Í stað 6% launahækkana annars fólks í almennu kjarasamningunum í vetur fá dómarar nú 8,5% almenna kauphækkun, ennfremur 5% vegna meintrar aukningar á vinnuálagi þeirra, einnig 1,5% í endurmenntunarsjóð og loks aukinn fjölda vinnutíma í ómældri yfirvinnu.

Þetta endurspeglar tvennt. Annars vegar, að Hæstiréttur hefur skipað dómaravænni fulltrúa í Kjaradóm. Hins vegar, að Kjaradóm skipa fimm hæstaréttarlögmenn, sem eiga undir dómara að sækja, þegar þeir flytja mál sín. Hér er um hagsmunaárekstur að ræða.

Óeðlilegt er, að hæstaréttarlögmenn ákveði laun þeirra, sem eru prófdómarar í daglegum störfum þeirra. Betra er, að leitað sé út fyrir lögmannastéttina. Það gerir kerfið að vísu flóknara, en er nauðsynlegt í samfélagi, sem er svo spillt, að spillingin nær til Hæstaréttar.

Úrskurður Kjaradóms hefur vakið gremju og raunar máttlausa reiði formanna stéttarfélaga, sem nýlega hafa skrifað undir eina þjóðarsáttina enn, þar sem láglaunastéttirnar í landinu taka enn og aftur á sig ábyrgð á því, að verðbólga fari ekki af stað að nýju hér á landi.

Úrskurðurinn í heild sýnir yfirstéttarkerfi, þar sem launum yfirstéttar opinbera geirans er kippt úr almennu launasamhengi og ákvörðun þeirra falin hópi annarra yfirstéttarmanna, sem eru sérstaklega hallir undir dómsvaldið, af því að þar sitja prófdómarar þeirra.

Við ákvörðun launa yfirstéttar opinbera geirans er þess gætt, að hafa kerfið ógegnsætt. Taxtalaunin eru ekki höfð áberandi há, en vel smurt á þau í formi launa fyrir yfirvinnu, sem ekki er unnin, og margvíslegum öðrum fríðindum, sem ekki eru almenn í þjóðfélaginu.

Þegar fjölmiðlar reyna að lýsa inn í þokuna, hefur yfirstéttin hljótt um sig, en gefur aldrei eftir fríðindin. Þannig halda ráðherrar áfram að taka útlagðan kostnað og dagpeninga í senn á ferðalögum sínum, svo að úr verður svonefnt ferðahvetjandi launakerfi ráðherra.

Öllum er ljóst, að það er út af kortinu að taka í senn nógu háa dagpeninga fyrir öllum ferðakostnaði sínum og halda öllum þessum peningum fyrir sjálfan sig, en senda ríkinu síðan reikning fyrir öllum útlögðum kostnaði. Samt er þetta spillta kerfi enn í fullum gangi.

Tekjukerfi yfirstéttar opinbera geirans er gegnsýrt af feluleik af þessu tagi. Ríkisskattstjóri og ríkisskattanefnd hafa gerzt samsek í að meðhöndla ýmis fríðindi þessarar yfirstéttar á annan hátt en fríðindi annarra aðila í þjóðfélaginu og framleiða þannig stéttaskiptingu.

Með framgöngu sinni grafa málsaðilar undan trausti þjóðarinnar á valdastofnunum sínum, ríkisstjórn, ráðuneytum og ekki sízt dómstólum, sem einnig á annan hátt vekja ítrekaða athygli á sér með furðulegum dómum og ævintýralegum drætti á uppkvaðningu dóma.

Nýleg hreinsun Hæstaréttar á Kjaradómi og skjót viðbrögð hins nýja Kjaradóms með ótrúlegum kjarabótum handa dómurum sýnir vel þetta hættulega ástand.

Jónas Kristjánsson

DV