Skaðleg friðaræfing

Greinar

Almannavarnaæfing Atlantshafsbandalagsins á Íslandi hefur aðeins táknrænt gildi. Hún leiðir saman hermenn frá löndum bandalagsins og löndum Varsjárbandalagsins sáluga, þeim sem hafa komizt eða vilja komast í Nató og hinum sem ekki hafa slíkt í hyggju.

Æfingin er táknræn fyrir það óvenjulega ástand, að í fyrsta skipti í margar aldir eru stórveldi Evrópu hvorki í stríði hvert við annað né að undirbúa slík stríð. Hún er táknræn fyrir, að loks er runnin upp öld friðar í Evrópu. Köldu stríði er lokið og heit stríð ekki á dagskrá.

Hér eftir verður ekki farið í stríð í Evrópu um fyrirsjáanlega framtíð. Ýmsar staðbundnar skærur verða áfram, sérstaklega á Balkanskaga, þar sem villiþjóðir vaða enn á súðum af orðlagðri grimmd. En liðin er sú tíð, að morð í Sarajevó kalli á styrjöld um Evrópu alla.

Vegna Balkanskaga má búast við, að áfram verði þörf fyrir samstarf Atlantshafsbandalagsins og ríkja Varsjárbandalagsins sáluga um lögregluaðgerðir og almannavarnir á leikvelli Serba, Króata og Albana. En hér eftir munu Balkanmálin sameina Evrópu en ekki sundra.

Eðlilegast er, að herir Evrópu æfi sig á Balkanskaga, þar sem eru raunverulegar aðstæður til æfinga. Þar er ákveðin landafræði og þar er ákveðið viðhorf fólks, hvort tveggja einstætt í sinni röð. Þar geta þeir reynt að bjarga fólki meðan annað skýtur á þá úr launsátri.

Það hefur sáralítið gildi fyrir verðandi verkefni Evrópuherja að æfa sig í almannavörnum á Íslandi. Herir Evrópu verða seint kallaðir til alvörustarfa á Íslandi, því að Íslendingar munu í neyð treysta sínum sveitum betur til almannavarna en tindátum Evrópuherjanna.

Raunar hefur því verið haldið fram af ábyrgum aðilum innan íslenzkra almannavarna, að æfing þessi sé ekki aðeins marklaus frá íslenzkum sjónarhóli, heldur skaði hún beinlínis almannavarnir með því að beina orku og tíma að táknrænu og marklausu gutli.

Enn fremur er æfingin á skaðlegum tíma. Hún spillir fyrir því, að fólk geti notið hálendisferða meðan hún stendur. Hún dregur þannig úr lífsgæðum okkar og margra ferðamanna, sem borga fyrir að koma hingað. Hún skaðar ferðaþjónustuna í landinu tvímælalaust.

Æfing Evrópuherjanna er einmitt haldin á þeim tíma, þegar hálendið er að opnast og líklegast er, að fólk vilji njóta þess. Meðal æfingaratriða er lágflug yfir helztu ferðamannastöðunum, þar á meðal Herðubreiðarlindum, Öskju, Sprengisandi og Þjórsárverum.

Það er von, að ferðafrömuðir spyrji, hvort íslenzkir embættismenn séu orðnir brjálaðir. Hitt mun þó sönnu nær, að þeir hafi leyft þetta fyrir sitt leyti, af því að þeir eru snobbaðir fyrir því að vera teknir gildir í samstarfi milli útlendinga. Þeir hafa einfaldlega ekki fullorðnazt.

Enn er tími til að banna fáránlegustu þætti æfingarinnar, svo sem sprengingar á hljóðmúrnum og lágflug á ferðamannastöðum. Það þjónar ekki þjálfun í almannavörnum að fljúga á ofurhraða í lágflugi eða að sprengja hljóðmúrinn. Slíkt eru bara fíflalæti flugmanna.

Tímabært er orðið að víttir verði þeir embættismenn utanríkisráðuneytisins, sem standa fyrir marklausum sandkassaleikjum, er skaða hagsmuni og lífsgæði okkar og viðskiptavina okkar. Ísland er enginn staður fyrir hávaðasama leiki til að hafa ofan af fyrir hermönnum.

Nató þarf sennilega sandkassaleiki til að halda upp á gott hernaðarástand í Evrópu. En almannavarnaæfing á hálendinu er ekki rétta leiðin til að fagna Evrópufriði.

Jónas Kristjánsson

DV