Stóriðja er úrelt

Greinar

Stjórnvöld hafa gert hlé á tilraunum sínum til að draga stóriðju inn í landið. Þetta hefur ekki fallið í kram heimamanna á ýmsum stöðum, sem taldir eru líklegir til stóriðju, einkum á Reykjanesskaga. Þeir reyna að þrýsta stjórnvöldum til að endurskoða hægaganginn.

Þótt stóriðja beri yfirleitt björg í bú, eru á henni ýmsir vankantar, sem hafa þarf í huga, sérstaklega þegar uppgangur er í atvinnulífinu. Engan veginn er öruggt, að stóriðja sé við allar aðstæður sú búbót, sem áhugamenn og baráttumenn stóriðju vilja vera láta.

Skiljanlegur er áhugi heimamanna á skjótum framgangi ráðagerða um stóriðju í héraði. Fyrst veldur undirbúningur stóriðjunnar miklum uppgripum heimamanna og síðan veitir rekstur hennar trausta vinnu og útsvör, sem skipta máli í fámennum sveitarfélögum.

Á landsvísu eru áhrifin ekki svona hagstæð. Byggingu stóriðjuvera fylgir bygging orkuvera. Samanlagt valda framkvæmdirnar sveiflu í atvinnulífinu. Skyndilega verður mikið framboð atvinnutækifæra, sem minnkar síðan jafn skyndilega aftur. Þetta hvetur verðbólguna.

Þar á ofan sýnir reynslan, að stóriðja verður seint náttúrulegur þáttur atvinnulífsins. Hún tengist lítt öðrum þáttum þess. Hún stendur að mestu utan víxlverkana atvinnulífsins og situr ein út af fyrir sig í fílabeinsturni fjarlægra fjölþjóðafyrirtækja.

Einn helzti galli stóriðjunnar er, að hún á sér ekki rætur í þjóðfélaginu eða markaðshagkerfinu. Hún verður ekki til fyrir tilverknað markaðsafla í frjálsu hagkerfi. Hún verður til fyrir staðfestingu Alþingis á samningum ríkisstjórnar við erlend fjölþjóðafyrirtæki.

Stóriðjan kemur að ofan með vinnubrögðum frönsku kaupauðgisstefnunnar frá átjándu öld. Hún er þáttur í úreltu hagkerfi ríkisforsjár, sem hefur lifað lengur hér á landi en annars staðar vegna stjórnmálaflokka, sem allir eru kreppuflokkar í stíl Framsóknarflokksins.

Stjórnvöld á Vesturlöndum sækjast ekki lengur eftir stóriðju. Hún er eftirlátin þriðja heiminum, þar sem menn eru svo örvæntingarfullir, að þeir líta fram hjá hliðarvandamálum. Vesturlönd vilja fremur sinna atvinnuvegum á borð við hátækni og tölvutækni.

Þar að auki samrýmist stóriðjan oft illa ýmsum markmiðum, sem vestræn ríki hafa sett sér í mengunarvörnum. Þess vegna er verið að rífa stóriðjuver á Vesturlöndum og setja þau að nýju saman í fátæku löndunum, þar sem mengun er ekki enn orðin að hugtaki.

Þannig er rifið álver í háþróuðu ríki á borð við Þýzkaland og sett upp að nýju í þróunarríki á borð við Ísland. Það er ekki fyrr en eftir slíka samninga, að íslenzkir ráðherrar byrja að klóra sér í höfðinu vegna vanefnda sinna á mengunarmarkmiðum sínum frá Ríó-fundinum.

Framganga íslenzkra stjórnvalda í stóriðjumálum minnir á ríki, sem ramba á jaðri norðurs og suðurs í þróuninni. Öðrum þræðinum keppast þau við að selja landið sem lóð undir stóriðju. Hinum þræðinum eru þau farin að átta sig á, að stóriðja er ekki ókeypis.

Á uppgangstíma næstu ára mun stóriðja eiga undir högg að sækja. Fólk mun auka umhverfiskröfur og þrýsta stjórnmálamönnum til að gæta betur að umhverfinu en áður. Og fólk mun öðlast meiri trú á lausnir frjálsa markaðarins en lausnir stóriðjusamninga.

Af þessum ástæðum hefur nú verið gert hlé eftir umdeilda ákvörðun um flutning gamals álvers til Grundartanga. Þetta lofsverða hlé má standa lengi.

Jónas Kristjánsson

DV