Illskárri vansæmdarhátíð

Greinar

Útihátíðahöld fóru ekki eins illa fram um þessa verzlunarmannahelgi og undanfarin ár. Þau fóru ekki vel fram, en minna var um alvarlegustu þættina, svo sem líkamsmeiðingar og nauðganir. Enn eru þau samt blettur á þjóðinni allri, sem lætur þau yfir sig ganga.

Áður fólust útihátíðahöld þessarar helgar einkum í drykkjuskap. Nú hefur bætzt við neyzla fíkniefna, sem framar öðru einkenndi helgina. Hvort tveggja ber að sama brunni. Það eru tilraunir til að deyfa heilann og komast í meint sæluástand, sem felst í minnisleysi.

Þótt barsmíðum hafi blessunarlega fækkað um verzlunarmannahelgina, heldur fólk áfram að skríða um á fjórum fótum í spýju sinni og halda að lokum heim í ömurlegum timburmönnum, hafandi skilið eftir dýran farangur sinn á tvist og bast um mótssvæðið.

Á mörgum hátíðasvæðum hafa yfirvöld lært af reynslu fyrri ára og lögðu nú hart að sér við að draga úr verstu afleiðingum hátíðahaldsins. Það breytir ekki því, að kjarni vandans er hinn sami og áður, að Íslendingar telja brýnt að afklæðast persónuleikanum.

Í alþjóðlegum samanburði er sérkennilegt, að Íslendingar séu svo innilokaðir persónuleikar, að þeir þurfi að missa ráð og rænu til að telja sig hafa skemmt sér. Slíkt er víðast hvar svo sjaldgæft, að erlendis er skrifað um Íslendinga sem sérkennilega bjánaleg fyrirbæri.

Deyfilyf á borð við áfengi og fíkniefni hafa fyrst áhrif á heilann og síðan á hreyfingar. Vegna skertrar dómgreindar telja neytendur þessara deyfilyfja sig fljótlega vera afar skemmtilega og í miklu stuði, þótt allsgáðir áhorfendur sjái ekki annað en aumkunarverð slytti.

Meðal frumstæðra þjóða hefur tíðkazt, að börn væru vígð inn í heim fullorðinna með því að þola skipulagða þraut og pín. Hér á landi virðast drykkjuhátíðir hafa eins konar hlutverk manndómsprófraunar. Allir verða að hafa lifað af eina hátíð til að geta talizt fullorðnir.

Markmið hátíðahalda verzlunarmannahelganna er að græða peninga á persónulegum vanmætti ungs fólks. Heimamenn á stöðum á borð við Akureyri og Vestmannaeyjar þola þessar hátíðir, af því að þær valda mikilli kaupsýslu á svæðinu. Gróðafíknin ræður ferð.

Þegar upp er staðið, reyna aðstandendur hátíðahaldanna að breiða yfir staðreyndir málsins. Þeir leggja áherzlu á, að í þetta sinn hafi betur tekizt til en áður, þótt eingöngu sé um að ræða misjafnlega vondar hátíðir, öllum þeim til skammar, sem nálægt komu.

Undantekningar eru á þessu eins og öðru, einkum þar sem hátíðahöld eru beinlínis fyrir vímuefnalaust fólk. Þangað sækja raunar margar fjölskyldur til að fá að vera í friði með sig og sína fyrir vesalingunum, sem telja sig vera afar skemmtilega og jafnvel í rosalegu stuði.

Vandi verzlunarmannahelgarinnar er auðvitað í þjóðararfleifðinni. Kynslóð eftir kynslóð er talið vera í lagi, að fólk sé illa drukkið heima hjá sér, þar sem börnin horfa á. Um allar helgar er lögreglan á þönum milli húsa til að stilla til friðar milli drukkinna hjóna.

Íslendingar hafa á þremur kynslóðum skotizt út úr þjóðháttum miðalda inn í tæknivæddan nútíma. Okkur hefur ekki tekizt að laga okkur að breytingunni til jafns við aðrar þjóðir, sem fengu meiri tíma. Ein afleiðinga þessa er, að við höfum ekki lært að umgangast áfengi.

Ráðamönnum landsins ber að taka saman höndum með skynsömu fólki til að breyta okkar eigin viðhorfum, svo að umheimurinn hætti að líta niður á Íslendinga.

Jónas Kristjánsson

DV