Sykur er fitandi fíkniefni

Greinar

Nýjar rannsóknir í Bandaríkjunum benda til, að sykur sé vanabindandi fíkniefni, sem valdi svipuðu boðefna- rugli í heilanum og önnur fíkniefni. Þeir, sem ánetjast sykri finnst sig vanta því meiri sykur sem þeir borða meiri sykur. Þetta er vítahringur fíkniefnanna.

Þetta styður fyrri kenningar um, að sykur sé einn helzti orsakavaldur offitu, sem er að verða eitt dýrasta heilbrigðisvandamál nútímans. Á mörgum meðferðarstofnunum offitu í Bandaríkjunum er farið að líta á stöðvun sykurneyzlu sem lykil að góðum árangri.

Offita er ekki það eina, sem sykurinn hefur á samvizkunni. Rannsóknir Helga Valdimarssonar prófessors benda til, að sykur sé veigamikill þáttur í sveppaóþoli, sjúkdómi, sem hefur valdið langri píslargöngu manna milli ótal sérfræðinga, sem ekki hafa skilið vandann.

Lengi hefur verið vitað, að sykur skemmir tennur. Þeir, sem hafa séð tennur tærast upp í glasi með gosi, geta í framhaldi af því spurt sjálfa sig að því, hvort ekki sé líklegt, að svona öflugt tæringarefni geti haft áhrif víðar í líkamanum en á tennurnar einar.

Þessi heilsuvandamál og ýmis önnur af völdum sykurs blikna við hlið hinna nýju upplýsinga um, að hann sé fíkniefni ofan á annað. Framleiðendur ýmissa matvæla hafa þó lengi ekki velkzt í neinum vafa um, að það auki viðskiptin að bæta sykri í matvælin.

Til þess að gera mjólkurvörur seljanlegri er bætt í þær 5­10% sykri ofan á þann mjólkursykur, sem fyrir er í vörunni. Slíkar fíkniefnablöndur mjólkur eru kallaðar fínum og sakleysislegum nöfnum á borð við skólajógúrt, skólaskyr, ávaxtajógúrt og ávaxtaskyr.

Til þess að gera morgunkorn seljanlegra er bætt í það sykri, allt að 47% af innihaldi pakkanna í algengum tegundum morgunkorns. Þetta er auðvitað ágætis aðferð til að gera fólk að fíkniefnaneytendum strax á barnsaldri, löngu fyrir aldur tóbaks, áfengis og amfetamíns.

Foreldrar, sem gefa börnum sínum þessar mjólkurvörur með þessu morgunkorni, gætu alveg eins gefið þeim brjóstsykur út á súkkulaði í morgunmat. Sykurmagnið er svipað og óhollustan svipuð. Þannig stuðla foreldrar óafvitandi að offitu og öðrum sykursjúkdómum barna.

Í matvörubúðum á Íslandi er leitun að pakkavöru, dósavöru eða glasavöru, sem inniheldur viðbættan sykur í minna magni en 1%. Yfirleitt er innihaldið margfalt meira. Það þýðir, að sykurinn er ekki lengur notaður bara sem krydd, heldur er hann hluti vörunnar.

Verst af öllu er gosið, sem er meira en 99% sykur að þurrefni. Neyzla á gosi hefur þrefaldazt hér á landi á þremur áratugum. Algengt er orðið, að sjá börn ganga um götur með heils og hálfs lítra flöskur af gosi á sama hátt og fyrirrennarar þeirra gengu um með sígarettur.

Ef frá er dreginn sykur, sem notaður er í útflutningsiðnaði og sykur, sem af náttúrulegum ástæðum er í mjólkurvörum og ávöxtum, notar hver einstaklingur eitt kíló af viðbættum sykri á viku. Sumir nota miklu meira, því börn og gamalmenni eru meðtalin.

Þessi mikla notkun á viðbættum sykri þýðir, að Íslendingar eru í öðru sæti í heiminum í ofneyzlu sykurs, næstir á eftir Bandaríkjamönnum. Í báðum þessum löndum eru offita og offitusjúkdómar eitt alvarlegasta og dýrasta heilbrigðisvandamál líðandi stundar.

Aukin þekking á afleiðingum notkunar á fíkniefninu sykri mun vafalítið leiða til stórtækra og víðtækra gagnaðgerða á Vesturlöndum á allra næstu árum.

Jónas Kristjánsson

DV