Ísraelsmenn vilja blóð

Greinar

Ástandið í Palestínu verður að versna, áður en það byrjar að batna. Framferði Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum þarf að byrja að ganga fram af Bandaríkjamönnum, eins og það er farið að ganga fram af Evrópumönnum. Bandarískri fjármögnun Ísraels þarf að linna.

Hingað til hefur Ísrael verið haldið hernaðarlega og efnahagslega á floti með bandarísku fé. Stuðningurinn stafar af, að bandarískir fjölmiðlar eru hallir undir Ísrael og að bandarískir pólitíkusar hafa slæma reynslu af að ögra þrýstihópum stuðningsmanna Ísraels.

Jafnframt þurfa Palestínumenn að losna við Arafat sem leiðtoga. Komið hefur í ljós, að hann getur ekki stjórnað Palestínu vegna spillingar í hirð hans, vegna hirðuleysis hennar um hefðbundinn embættisrekstur og vegna óbeitar hans á nauðsynlegri valddreifingu.

Ófriðarferlið í Palestínu stefnir í rétta átt. Opinskár ofbeldismaður í stjórnmálum hefur tekið við af lævísum samningamanni sem forsætisráðherra Ísraels. Netanyahu hefur tekið við af Peresi og stefnir ótrauður að blóðugu uppgjöri milli Ísraela og Palestínumanna.

Netanyahu hefur brotið flest ákvæði samkomulagsins í Ósló um friðarferli í Palestínu. Hann hefur reynt að ögra Palestínumönnum sem mest hann má, meðal annars með því að endurnýja landnám Ísraelsmanna á hernumdu svæðunum, gegn mótmælum umheimsins.

Enn fremur heldur hann fyrir stjórn Palestínumanna veltusköttum, sem stjórn hans hefur innheimt á hennar vegum. Þetta kemur ofan á endurtekið viðskiptabann og hefur rústað fjárhag Palestínu, sem var þó bágur fyrir, einkum vegna efnhagshryðjuverka Ísraelsstjórnar.

Mestu máli skiptir þó, að hann er að reyna að beygja Arafat í duftið. Það gerir hann með hertum kröfum um, að Arafat sjái um, að almennt verði hafðar hendur í hári stuðningsmanna Hamas-hreyfingarinnar, sem hefur stutt hryðjuverk af hálfu einstakra Palestínumanna.

Þetta getur Arafat ekki, enda er ástandið þannig, að hryðjuverk eru ofur skiljanleg og eðlileg viðbrögð langkúgaðrar þjóðar gegn hernámsliði helzta fasistaríkis nútímans. Ef Arafat lætur handtaka stjórnarandstæðinga holt og bolt, er hann búinn að vera sem þjóðarleiðtogi.

En Arafat er hvort sem er búinn að vera. Hann hefur gert samninga við hernámsríki, sem það hefur ekki staðið við. Hann stendur uppi sem hálfgerður leppur Netanyahus. Í vaxandi mæli styðst hann við hirð sína og leyniþjónustu, en ekki við almenningsálitið í landinu.

Búast má við, að Hamas-hreyfingin taki smám saman við sem málsvari Palestínu. Hún mun mæta Likud-hreyfingu Netanyahus á nótum, sem hún skilur. Það verður ofbeldi gegn ofbeldi. Þegar það ferli hefur verið leitt til enda, getur friðarferli loksins hafizt að nýju.

Arafat dugði aðeins, þegar við Peres var að semja. Þar stóð samningarefur gegn samningaref. Ef þeir hefðu fengið tækifæri til að halda áfram að þrúkka um málið, hefði Palestínumálið hugsanlega fengið farsælan endi. En það vildu kjósendur í Ísrael ekki. Þeir kusu blóð.

Með því að velja opinskáan ofbeldismann sem forsætisráðherra valdi Ísrael ófriðarferli, sem enn er rétt að byrja. Hryðjuverkum á eftir að fjölga á báða bóga. Arafat mun smám saman missa tökin og Netanyahu mun halda áfram að niðurlægja hann og þjóð hans.

Þetta mun smám saman leiða til styrjaldar eða ígildi styrjaldar. Að því blóðbaði loknu verða menn loksins orðnir svo þreyttir, að nýtt friðarferli getur hafizt.

Jónas Kristjánsson

DV