Pólitíkusar verja gæludýrin

Greinar

Viðskiptaráðherra hefur ekki skoðun á, hvort það séu óeðlilegir viðskiptahættir olíufélaganna að bjóða annars vegar öll sama benzínverð upp á eyri og hins vegar að rýma hvert fyrir öðru á Austurlandi og Norðausturlandi, þannig að eitt félag verði eftir á hverjum stað.

Viðskiptaráðherra telur raunar líklegast, að um eðlilega hagræðingu sé að ræða. Samt eru aðgerðir olíufélaganna þess eðlis, að þær eru til þess fallnar að draga úr þörfum olíufélaganna á hagræðingu til að geta boðið viðskiptamönnum sínum lægra verð en áður.

Þótt ekki sé ljóst, um hvers konar hagræðingu ráðherrann er að tala, þá er það örugglega ekki sú hagræðing, sem felst í, að þjóðarhagur batni með lægra benzínverði. Til dæmis er ekki um að ræða ódýrari yfirbyggingu, sem ætlað er að skila sér í lægra vöruverði.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis er enn kátari en ráðherrann, því að hann telur aukna samkeppni hafa leitt til minni samkeppni. Olíufélögin séu að loka benzínstöðvum til að spara kostnað á móti öðrum kostnaði, sem þau hafi orðið fyrir í harðri keppni.

Hann telur ekki vera um skipulega markaðsskiptingu að ræða, þótt olíufélögin rými hvert fyrir öðru og kaupi jafnvel eigur hvert annars í því skyni, að einungis eitt olíufélag verði eftir á hverjum stað. Raunar hafnar hann algerlega kenningunni, að um samráð sé að ræða.

Í ofanálag telur formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að mikil samkeppni sé milli olíufélaganna um viðskipti, þótt benzínverðið sé hið sama. Vísar hann til punktakorta þeirra, sem Neytendasamtökin hafa gagnrýnt og bönnuð hafa verið á Norðurlöndum.

Formaðurinn telur semsagt, að aukin samkeppni felist í sjónhverfingum, sem stjórnvöld á Norðurlöndum telja fjandsamlegar samkeppni. Hann telur aukna samkeppni felast í sjónhverfingum, sem Neytendasamtökin hafa fordæmt sem óhagstæðar fyrir valfrelsi neytenda.

Viðhorf viðskiptaráðherra og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis endurspeglar viðhorf tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins, sem áratugum saman hafa gætt hagsmuna olíufélaganna og varðveitt þau fyrir innrás heilbrigðra markaðslögmála.

Röksemdir ráðherrans og formannsins eru botnlaus þvæla, sem vonandi vekur athygli neytenda á þeirri óeðlilegu stöðu, að stjórnmálaflokkarnir eru í leyni fjármagnaðir af stórfyrirtækjum, sem þiggja að launum vernd stjórnmálanna og stuðning til fáokunar.

Mistekizt hafa allar tilraunir til að setja lög um opið bókhald og opnar viðskiptamannaskrár stjórnmálaflokkanna, af því að slík opnun mundi sýna kjósendum fram á samhengið milli gjafmildi nokkurra stórfyrirtækja og pólitískra ákvarðana, sem eru þeim í hag.

Þjónustulund stjórnmálamanna á borð við formann efnahags- og viðskiptanefndar og viðskiptaráðherra endurspeglast síðan hjá ýmsum stofnunum, sem reynzt hafa hallar undir bræðralag fyrirgreiðslukerfisins. Þannig lætur Samkeppnisstofnun olíufélögin í friði.

Samkeppnisstofnun sá ekkert athugavert við, að Olíufélagið keypti Olíuverzlunina og hefur ekkert gert í kæru Neytendasamtakanna vegna verðlagningar olíufélaganna á benzíni, sem er hin sama upp á eyri. Hún er ekkert að flýta sér, þegar um gæludýrin er að ræða.

Viðbrögð stjórnmálamanna og eftirlitsstofnunar segja skýra sögu um þriðja heims þjóðfélag, sem er gegnsýrt af fyrirgreiðslum í þágu gæludýra kerfisins.

Jónas Kristjánsson

DV