Þrefað um mannréttindi

Greinar

Mannréttindi og vestrænn hroki eru leiðarorð í þrefi, sem oft má sjá í samskiptum ríkisstjórna á Vesturlöndum og í þriðja heiminum. Í kjölfar stjórnarskipta í Bretlandi og breytinga á stjórn Bandaríkjanna hafa magnazt vestrænar kröfur um mannréttindi í öðrum álfum.

Nú eru það ekki lengur harðstjórar Afríku, sem eru í fylkingarbrjósti andstöðunnar gegn hinum vestrænu kröfum. Það eru ríkisstjórnir nýríkra landa í Suðaustur-Asíu, sem andmæla Vesturlöndum og beita yfirvegaðri málflutningi, en áður tíðkaðist í þessum efnum.

Til skamms tíma var notuð röksemdin um, að íbúar hvers þróunarríkis yrðu að standa saman til að þróa landið. Þeir hefðu ekki efni á sundrungunni, sem fylgdi vestrænu lýðræði, heldur bæri þeim að fylkja sér um hinn sterka leiðtoga, er mundi leiða þær fram á veg.

Ljóst var, að kenningin var ekkert annað en yfirvarp á tilraunir harðstjóra þriðja heimsins til að fá að vera í friði við að kúga þjóðir sínar, ræna verðmætum þeirra og koma illa fengnum peningum á bankareikninga í Sviss. Kenningin hefur enda lengi legið dauð og grafin.

Ríkisstjórnir Suðaustur-Asíu vísa hins vegar í menningararf í þeim heimshluta, sem sé öðru vísi en hinn vestræni. Ekki sé þar hefð fyrir því, að einstaklingurinn sé þungamiðja heimsins, heldur sé það samfélagið. Þar sé fólki eðlilegt að vera þegnar fremur en borgarar.

Um nokkurra ára skeið hafa valdhafar í Singapúr verið helztu hugmyndafræðingar andófsins gegn mannréttindakröfum, valdhafar í Malasíu helztu slagsmálamenn hennar, valdhafar í Indónesíu helztu fýlupokar hennar og valdhafar í Kína helztu dólgar stefnunnar.

Með vaxandi efnahagsgengi slíkra ríkja hefur ráðamönnum þeirra vaxið sjálfstraust til að standa uppi í hárinu á ráðamönnum Vesturlanda, þegar þeir eru að amast við mannréttindabrotum í harðstjórnarríkjum á borð við Indónesíu, Kambódsíu, Kína og Burma.

Þessi og önnur ríki Suðaustur-Asíu skáka óþarflega mikið í skjóli viðskiptahagsmuna vestrænna fjárfesta, sem vilja ekki, að Vesturlönd séu að efna til úlfúðar við góð fjárfestingarríki. Einnig láta þessi ríki bera fé í bandaríska kosningasjóði til að kaupa sér frið.

Ráðherrar í Malasíu segja, að sáttmálar Sameinuðu þjóðanna hafi verið orðaðir á tíma, þegar Vesturlönd réðu þar lögum og lofum. Þeir endurspegli vestræn viðhorf, sem ekki séu algild. Sáttmálar þessir yrðu orðaðir á allt annan veg, ef nú væri verið að semja þá.

Hugmyndafræðingar Vesturlanda segja hins vegar það vera algilt lögmál, að fólk eigi að vera frjálst sem einstaklingar. Menn eigi að fá óttalaust að segja meiningu sína, taka þátt í hvers konar samtökum, eiga aðgang að fjölbreyttum upplýsingum og stunda trú sína.

Ýmsir aðrir menningarheimar en hinn vestræni eru sammála þeim sjónarmiðum, sem ráðherrar í Malasíu og Singapúr segja vestræn. Sjónarmiðin í Indlandi eru svipuð hinum vestrænu og sama má segja um Japan, þótt þar vilji menn sízt af öllu styggja nágranna sína.

Það einkennir einmitt heimssögu síðustu ára, að þjóðir Austur-Evrópu og Suður-Ameríku hafa í stórum stíl varpað af sér oki harðstjóra og skipað mannréttindum til hásætis að nýju. Í þeim heimshlutum eru slík sjónarmið ekki talin bara vestræn, heldur algild.

Vesturlönd eiga ekki að slá af mannréttindakröfum. Hugmyndafræði þeirra er á sigurbraut, enda er hún forsenda langvinnrar hagsóknar og annarra framfara.

Jónas Kristjánsson

DV