“Lengi tekur sjórinn við”

Greinar

Óhæfur ríkissaksóknari er ein af orsökum þess, að kærur Hollustuverndar vegna mengunar sjávar hafa verið látnar niður falla hjá embætti hans. Fimm sinnum hefur Hollustuvernd reynt að vekja embættið til aðgerða og jafnoft hefur embættið komið sér hjá aðgerðum.

Óhæft umhverfisráðuneyti er önnur orsök þess, að íslenzkir sjómenn komast upp með að menga hafið, jafnvel í vitna viðurvist. Ráðuneytið hefur ekki stutt sem skyldi við kærumálin, sem Hollustuvernd hefur sent til meðferðar embættis ríkissaksóknara.

Ennfremur hefur ráðuneytið látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að skýrari lögum og reglugerðum, þar sem refsingar séu margfalt harðari en nú gilda. Þær eru nú svo vægar, að ríkissaksóknari getur vísað til þess, að ekki taki því að fá brotamenn dæmda.

Þetta tengist auðvitað þeirri dapurlegu staðreynd, að einn helzti andstæðingur umhverfismála er sjálfur ráðherra umhverfismála, sem jafnframt hefur það hlutverk sem landbúnaðarráðherra að vernda þau gífurlegu umhverfisspjöll, sem enn eiga sér stað í landbúnaði.

Með framgöngu sinni hafa ráðuneyti og ríkissaksóknari látið þau boð út ganga, að það sé í lagi að menga hafið. Það sé í lagi að fleygja grúti í sjóinn. Það sé í lagi að fleygja vírum í sjóinn. Það sé í lagi að skilja net eftir í sjó. Og það sé í lagi að nota eitraða skipamálningu.

Um leið er verið að segja útlendingum, að Íslendingum sé ekki treystandi til að taka þátt í fjölþjóðlegu átaki um verndun hafsins fyrir mengun, svo að það megi hér eftir sem hingað til verða gullkista hollra matvæla. Það er verið að segja, að við séum ólæknandi sóðar.

Auðvitað eru Íslendingar sóðar. Það sést af meðferð úrgangs frá mörgum þéttbýlisstöðum landsins. Um hann gildir hin hefðbundna, íslenzka meginregla: “Lengi tekur sjórinn við”. Meðferð skipstjórnarmanna á úrgangi og rusli er þáttur í þessari íslenzku skaphöfn.

Þótt sjórinn taki lengi við, eru eigi að síður mælanleg áhrif af menguninni. Ólögleg skipamálning, sem er vinsæl hér á landi, hefur þegar skaðað lífríki sjávar hér við land. Með því að fyrirlíta lífsbjörgina með þessum hætti, munum við smám saman eyðileggja gullkistuna.

Um leið erum við að koma óorði á útflutt matvæli sjávarútvegsins. Einhvern tíma kann að koma að því, að valdamiklar stofnanir í útlöndum komi auga á kæruleysi og auðnuleysi Íslendinga í umhverfismálum og leggi stein í götu viðskipta okkar við útlönd.

Alþingi ber í haust að taka á þessari alvarlegu vanrækslu. Setja þarf skýr og hörð lög um mengun sjávar, með ákvæðum um háar sektir og varðhald. Við þurfum í eitt skipti fyrir öll að koma lögum yfir sóða og vernda þannig útflutningshagsmuni okkar til langs tíma.

Ennfremur þarf að breyta stjórnsýslunni á þann veg, að ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar geti ekki haft umhverfisráðuneytið í vasanum í þágu skammtímasjónarmiða. Sérstaklega er mikilvægt, að ráðherra mengunarráðuneytis sé ekki jafnframt umhverfisráðherra.

Einn þáttur þessa séríslenzka blygðunarmáls leysist af sjálfu sér. Núverandi ríkissaksóknari mun láta af völdum í haust og við taka annar, sem væntanlega telur ekki utan verkahrings síns að fylgja eftir kærum út af brotum á lagaákvæðum um spjöll á umhverfinu.

Mestu máli skiptir, að þjóðin fari að komast til þroska og fari að átta sig á, að spakmælið: “Lengi tekur sjórinn við”, er í raun áfellisdómur þjóðarinnar um sjálfa sig.

Jónas Kristjánsson

DV