Markaðslögmál kennara

Greinar

Meira en hundrað kennara vantar til starfa í skólum landsins í haust. Meira að segja vantar nærri tvo tugi kennara í Reykjavík, þar sem sjaldan hefur verið skortur á kennurum. Auglýsingar eftir kennurum bera keim vaxandi vantrúar á, að þær muni skila árangri.

Þetta minnir á stöðuna eins og hún var fyrir réttum áratug. Nú er þensla í þjóðfélaginu eins og þá og nú er auðvelt fyrir kennara eins og þá að fá aðra vinnu, betur borgaða. Þetta heita markaðslögmál og eru réttilega talin vera hreyfiafl efnahagslegra framfara.

Vel getur verið, að starfskröftum kennara sé betur varið í mikilvægum störfum utan skólanna. Þannig sé kennaraskorturinn þjóðhagslega hagkvæmur. En dæmið hlýtur þó að líta öðruvísi út frá sjónarmiði þeirra, sem bera ábyrgð á, að fræðsluskyldu sé haldið uppi.

Sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins reyna að halda kennurum og fá kennara með því að bjóða staðbundin kaupígildi í ýmsu formi. Svo langt gengur auglýsingamennskan, að grunnskólinn á Hellissandi auglýsir aðgang að orkunni frá Snæfellsjökli.

Að öllu samanlögðu veldur þetta launaskriði og eykur þrýsting á ríkisvaldið að láta meira en ella undan kröfum kennara um almennar kjarabætur. Svo vel vill til fyrir kennara, að núgildandi samningar renna út um næstu mánaðamót, þegar vetrarstarfið er að byrja.

Dæmið snýst aðeins að forminu til um, hvort kennarar eigi skilið hærri laun eða ekki, af því að störf þeirra séu svo mikilvæg fyrir þjóðfélagið eða ekki. Markaðsöflin hafa þegar tjáð sig um þetta mál og komizt að raun um, að freista þurfi fleiri til kennarastarfa.

Dæmið snýst ekki heldur um, hvort refsa eigi kennarastéttinni fyrir að hafa haldið uppi skólastarfi, sem skilar minni árangri en hliðstætt starf í öðrum löndum, einnig þeim sem hafa stærri bekkjardeildir, lægri rekstrarkostnað skóla og lægri kennaralaun.

Fjölþjóðlegar rannsóknir benda til, að lítið samhengi sé milli kostnaðarþátta skólastarfsins og árangurs nemenda í samræmdum prófum í ýmsum löndum. Þetta má orða á þann hátt, að lítið samhengi sé milli þess, sem lagt er í skólakerfið, og þess, sem kemur út úr því.

Þetta jafngildir því hins vegar ekki, að alveg sé sama hver kjör kennara séu í samanburði við aðrar stéttir í sama þjóðfélagi. Ef kjör þeirra eru slakari en annarra, verður atgervisflótti úr stéttinni. Það kemur niður á skólastarfi. Þannig starfa hin sjálfvirku markaðsöfl.

Þegar svo er komið, að hvorki er unnt að manna skólakerfið vel né illa, heldur mannast það alls ekki, hljóta ábyrgðarmenn kerfisins að taka afleiðingum þess og fara að bæta kjör kennara. Hér er ekki verið að tala um réttlæti, heldur eðlilega sjálfsvörn skólakerfisins.

Lengi var sagt, að laun kennara mættu vera lægri en ella vegna langrar sumarlokunar, mikilla fría um jól og páska og vegna lítils afkastaþrýstings í samanburði við almenna vinnumarkaðinn. Markaðsöflin hafa hins vegar úrskurðað, að þessi fríðindi vegi muninn ekki upp.

Búast má við, að þjóðfélagið fari að gera vaxandi kröfur til skólakerfisins um mælanleg afköst, svo sem tíðkast í einkageiranum. Búast má við, að kennarafrí fari að dragast saman. Að einhverju leyti má nota slík atriði sem afsökun fyrir bættum kjörum kennara.

Allar rökræður af þessu tagi blikna fyrir þeirri staðreynd, að íslenzkir skólar fást ekki mannaðir að fullu, af því að þeir eru ekki samkeppnishæfir í kjörum.

Jónas Kristjánsson

DV