Að eiga kökuna og éta hana

Greinar

Mörgum Íslendingum finnst í lagi að reyna að hafa tekjur af hvoru tveggja í senn, hvalveiðum og hvalaskoðun. Meirihluti þjóðarinnar vill hefja hvalveiðar að nýju, þrátt fyrir boðaðar refsiaðgerðir umheimsins og þrátt fyrir sannaða tekjumöguleika af hvalaskoðun.

Menn virðast ekki gera sér grein fyrir, að fólkið, sem vill borga mikið fyrir að skoða hvali, vill líka leggja hönd á plóginn til að refsa ríkjum, sem leyfa hvalveiðar. Svo virðist sem Íslendingar séu reiðubúnir til að trúa því, að þeir geti hvort tveggja, átt kökuna og étið hana.

Norræni laxasjóðurinn, undir forustu Orra Vigfússonar, hefur lagt til við ríki Norður-Atlantshafsins, að þau komi sér upp sameiginlegum gæðastimpli fyrir sjávarafurðir, svo að þær verði að eins konar merkjavöru, sem seljist á hærra verði en aðrar sjávarafurðir.

Hugmyndin byggist á því, að settar verði harðar reglur um gæði og hreinlæti, um jafnvægi í lífríki sjávar, um hóflega veiði og umhverfisvæn veiðarfæri. Gæðastimpillinn þarf að vera trúverðugur til þess, að væntanlegir viðskiptavinir taki mark á honum.

Á sama tíma og menn gæla við hugmyndir Orra eru íslenzkir sjómenn að menga sjóinn út og suður. Vísað er frá kærumálum Hollustuverndar vegna losunar olíu og grútar, veiðarfæra og rusls. Refsiákvæði mengunarlaga eru losaraleg og áhugaleysi embættismanna algert.

Ráðamenn sveitarfélaga hafa svipuð viðhorf og sjómenn og telja, að lengi taki sjórinn við. Um helgina voru íbúar Grafarvogs í freyðibaði úr lækjum frá Ártúnshöfða. Margir sóðarnir ímynda sér samt, að Ísland geti verið með í markaðsátaki hreinna sjávarafurða.

Komið hefur í ljós, að mikill peningur er í lífrænum landbúnaði, sem er alþjóðlega skilgreint hugtak. Fólk er reiðubúið að kaupa matvöru hærra verði, ef hún er ræktuð án eiturefna og tilbúins áburðar. Hér er stunduð slík ræktun og rekin vottunarstofa á því sviði.

Bændasamtökin ofsækja þessa starfsemi og þykjast ætla að bjóða í staðinn upp á eitthvað, sem kallað er vistvænn landbúnaður, sem ekki er alþjóðlega skilgreint hugtak á borð við lífrænan landbúnað, og hefur ekkert sölugildi sem dýr og trúverðug merkjavara.

Þessi stefna bændasamtakanna er tilraun til að selja íslenzkan landbúnað eins og hann er, áður en hann hefur verið siðvæddur að hætti lífræns landbúnaðar. Fyrir kvartmilljarð króna af almannafé er búin til ímyndun vistvæns landbúnaðar til að spara fyrirhöfn.

Kökugeymsla og kökuát landsfeðranna fer fram með þeim hætti, að með annarri hendi skrifa þeir undir loforð um minnkun á losun skaðlegra efna út í andrúmsloftið og með hinni hendinni skrifa þeir undir samninga um stóriðju, sem eykur losun þessara efna.

Landsfeðurnir segjast hafa mikinn áhuga á umhverfisvernd og hafa búið til sérstakt embætti umhverfisráðherra, sem í rauninni er útibú frá landbúnaðarráðuneytinu og gætir stundarhagsmuna mengandi atvinnuvega, einkum og sér í lagi sauðfjárræktar.

Umhverfisráðuneytið stefnir markvisst að því að koma lögsögu hálendisins í hendur þeirra sveitarfélaga, þar sem sauðfé er ein helzta atvinnugreinin. Þetta er liður í tilraunum til að viðhalda atvinnu af ofbeit og uppblæstri, sem rannsóknir sýna, að eru á háu stigi.

Við héldum ranglega, að í senn mætti reka Mývatn sem kísilnámu og koma því á skrá helztu náttúruminja heims. Við höfum étið þá köku og eigum hana því ekki.

Jónas Kristjánsson

DV