Sameining framsóknarflokka

Greinar

Einfaldara er að sameina Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn heldur en Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið. Annars vegar eru tveir flokkar, sem hafa svipuð sjónarmið í stjórnmálum og hins vegar tveir flokkar, sem hafa þverstæð sjónarmið í stjórnmálum.

Það er engan veginn fráleit hugmynd að sameina Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk. Stefnuskrárnar eru keimlíkar og hagsmunagæzlan svipuð. Eini munurinn er, að Framsóknarflokkurinn gætir hagsmuna Smokkfisksins og Sjálfstæðisflokkurinn Kolkrabbans.

Þessi munur í hagsmunagæzlu var mikilvægari á fyrri áratugum en hann er núna í lok aldarinnar. Smokkfiskurinn varð undir í baráttunni við Kolkrabbann, tók upp búskaparhætti hans og er núna eins konar litli bróðir hans í markaðsskiptingu og fáokun.

Meginmarkmið beggja flokka er að varðveita ráðherratign marskálkanna, gæta hagsmuna gæludýranna, útvega stöður fyrir liðsforingjana og stóla fyrir herforingjana. Annað meginmarkmiðið er, að lítið gerist í stjórnmálum og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum.

Hér er um að ræða tvo framsóknarflokka, sem af sagnfræðilegum ástæðum bjóða fram hvor í sínu lagi, en koma málefnalega fram sem einn flokkur í ríkisstjórn. Þeir eru sammála um óbreytt ástand í viðkvæmum málum á borð við kvóta, landbúnað og evrópskt samstarf.

Öðru máli gegnir um Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkinn. Annars vegar er flokkur, sem skarar vinstri væng Framsóknarflokksins og hins vegar er flokkur, sem skarar hægri væng Sjálfstæðisflokksins. Þeir eru ósammála í flestum viðkvæmum þjóðmálum.

Spennandi verður að sjá, hver verður stefna fyrirhugaðs Jafnaðarmannaflokks í kvótum, landbúnaði, evrópsku samstarfi og vestrænu hernaðarsamstarfi. Sennilegt er, að niðurstaðan verði mjög svipuð því, sem hún er hjá framsóknarflokkunum tveimur í ríkisstjórn.

Með Jafnaðarmannaflokknum verða framsóknarflokkarnir orðnir þrír og spanna væntanlega fylgi 95% íslenzkra kjósenda. Eftir það mun Framsóknarflokkurinn ýmist mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki eða Jafnaðarmannaflokki og þindarlaus stöðugleiki ríkja í pólitík.

Samkvæmt skoðanakönnum mun fylgi Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins skila sér vel inn í Jafnaðarmannaflokkinn, en ekki fylgi annarra flokka, svo sem Kvennalistans. Það ætti því að vera óhætt fyrir A-flokkana tvo að breytast í þriðja framsóknarflokkinn.

Með sameiningu A-flokkanna búa þeir til trúverðugan kost fyrir Framsóknarflokkinn að starfa með í ríkisstjórn á milli stjórnartímabila hans með Sjálfstæðisflokknum. Það þýðir, að marskálkar A-flokkanna komast oftar í ríkisstjórn, en Sjálfstæðisflokksins sjaldnar.

Þetta mynztur er gerólíkt mynztri Reykjavíkurlistans, þar sem kvótar, landbúnaður, evrópskt samstarf og vestrænt hernaðarsamstarf flækjast ekki fyrir. Þar gátu fjögur stjórnmálaöfl sameinazt um meirihluta og mjúku málin. Slíkt mynztur væri miklu flóknara á landsvísu.

Að vori verður líklega reynt að halda mynztri Reykjavíkurlistans og útfæra það í kosningum fleiri sveitarfélaga. Slíkt verður hins vegar tæpast endurtekið í þingkosningunum, sem verða ári síðar. Þá mun afmörkuð sameiningarviðleitni A-flokkanna hafa skilað árangri.

Engu skiptir, hver sameinast hverjum á landsvísu. Niðurstaðan verður ævinlega nýr framsóknarflokkur með stíl og stefnu gömlu framsóknarflokkanna.

Jónas Kristjánsson

DV