Alvörumjólk í augsýn

Greinar

Svo getur farið, að þéttbýlisfólk geti aftur fengið að drekka alvörumjólk, sem ekki hefur verið misþyrmt í verksmiðju með því að gerilsneyða hana og fitusprengja. Kristján Oddsson, bóndi á Neðra-Hálsi í Kjós, er að stofna eigið mjólkurbú og reyna að afla opinberra leyfa.

Kristján hefur lengi haft áhuga á framleiðslu lífrænt ræktaðra landbúnaðarafurða og hefur í tæpan áratug ræktað lífrænt grænmeti, einkum gulrætur. Hann hefur nú fengið vottun frá vottunarstofunni Túni um, að mjólkurframleiðslan standist kröfur um lífræna ræktun.

Lífrænt ræktaða mjólkin frá Neðra-Hálsi fer til Mjólkursamsölunnar og blandast annarri mjólk. Nú hyggst bóndinn setja upp eigið mjólkurbú og selja þaðan undir eigin merki lífrænt ræktaða mjólk, sem ekki hefur verið fitusprengd og ætti því að fara betur í marga.

Gerilsneyðingin er stærri biti í hálsi. Samkvæmt lögum er skylt að gerilsneyða mjólk. Kristján vonar, að hann fái undanþágu eða að lögum verði breytt, svo að hringnum verði lokað og aftur verði hægt að fá á almennum markaði mjólk í eðlilegu upprunaástandi.

Gerilsneyðing og fitusprenging komu til sögunnar, þegar hreinlæti og aðstæður til hreinlætis voru lakari til sveita en nú. Þær voru einnig þáttur í að losa landbúnaðinn við samkeppni Thors Jensens á Korpúlfsstöðum, sem lét flytja sína mjólk beint í hendur neytenda.

Ef einstakir bændur geta framleitt sérstaka mjólk undir eigin merkjum, standa þeir auðvitað og falla með orðsporinu, sem fer af vörunni. Þeir verða því að vanda til hreinlætis og annarra gæða, en geta á móti yfirleitt fengið hærra verð fyrir mjólkina sem sérvöru.

Reynslan sýnir, að neytendur vilja kaupa og borga meira fyrir lífrænt ræktaða vöru. Það hefur leitt til hægfara fjölgunar bænda, sem fylgja alþjóðlegum stöðlum um slíka vöru og afla sér vottunar um slíkt frá vottunarstofunni Túni. Einkum eru þetta grænmetisbændur.

Bændasamtökin hafa lagt steina í götu þessarar þróunar, sem stríðir gegn þeirri hugmyndafræði, að öll framleiðsla bænda fari í einn pott. Ýmis teikn benda þó til, að andstaða samtakanna sé að linast, enda kalla vandræði landbúnaðarins á fjölbreyttara vöruúrval.

Neytendur eru að venjast því að sjá stimplanir um lífræna vottun á umbúðum matvæla, einkum grænmetis. Um skeið hefur lífrænt ræktuð AB-mjólk einnig verið á boðstólum. Ráðagerðir Kristjáns á Neðra-Hálsi eru svo eitt skrefið enn á þróunarbraut heilsuræktar.

Á tímum fullkomnustu tækni í hreinlætismálum er kominn tími til að hverfa aftur til upprunans og byrja að framleiða vörur og selja í náttúrulegu ástandi. Lífrænt ræktuð mjólk, sem hvorki er fitusprengd né gerilsneydd væri mikilvægur áfangi á framfarabrautinni.

Svo langt gengur spilling mjólkur í mjólkurbúum, að ekki er aðeins skaðað ónæmiskerfi fólks með gerilsneyðingu, heldur er einnig örvuð sykurfíkn þess með því að dæla strásykri í mjólk og kalla hana síðan söluhvetjandi nöfnum á borð við skólajógúrt og skólaskyr.

Í því ástandi standa mjólkurvörur ekki undir núverandi auglýsingum um hollustu mjólkur. Ef hins vegar væri liðkað til fyrir náttúrulegri framleiðslu á merkjavöru í mjólk og mjólkurafurðum, væru meiri líkur á, að varan stæði undir fullyrðingum auglýsinga.

Menningarsjúkdómar nútímans stafa sumpart af neyzlu verksmiðjufóðurs. Endurheimt náttúrulegra afurða mun bæta heilsu þeirra, sem nota slíkar vörur.

Jónas Kristjánsson

DV