Ruddinn má fara heim

Greinar

Við getum ekki látið fulltrúa Kínastjórnar leika hlutverk skömmtunarstjóra í samskiptum okkar við útlenda aðila. Við getum ekki leyft ruddalegum sendiherra Kína hér á landi að flagga hótunum um, að Íslandi verði refsað fyrir samskipti við varaforseta Taívans.

Sendiherra Kína á Íslandi líkist ráðamönnum Kína að því leyti, að hann kann ekki mannasiði. Hann á því ekki að vera sendiherra hér á landi. Þar með er ekki sagt, að Kínverjar kunni ekki mannasiði. Þeir ráða bara engu um framferði dólganna, sem þar ráða ríkjum.

Kínverjar hafa enga skoðun á því, hvort ráðamenn erlendra ríkja eigi að taka á móti sendimönnum Taívans. Þeir eru bara þegnar í ríki, sem er stjórnað af ófyrirleitnum glæpaflokki, sem reynir að auka áhrif sín í útlöndum með alls konar hótunum og ögrunum.

Viðtal forsætisráðherra Íslands við varaforseta Taívans er engin móðgun við Kínverja. Virðingu Kína hefur hins vegar sett ofan við dólgslæti sendiherrans. Þeir, sem kunna ekki mannasiði, missa virðingu, en afla sér hennar ekki. Virðing kemur nefnilega að innan.

Raunar ber siðameistara utanríkisráðuneytisins að kalla sendiherra Kína á sinn fund og minna hann á mannasiði. Slíkt mundi senda þau skilaboð til glæpaflokksins í Kína, að dólgslæti hafi ekki áhrif hér á landi frekar en í Danmörku eða öðrum siðuðum ríkjum.

Því miður er utanríkisráðherra okkar hræddur að eðlisfari og mun verða í felum í máli þessu. Hann er alltaf hræddur, þegar útlendingar byrsta sig, svo sem í ljós kom í misheppnuðum samskiptum hans við norsk stjórnvöld út af hagsmunum Íslendinga á hafinu.

Ef frá er skilin lömun utanríkisráðuneytisins, er heimsókn varaforseta Taívans hið bezta mál. Hún undirstrikar, að við seljum fjórum sinnum meira til Taívans en til Kína, enda fara viðskipti við Taívan eftir markaðslögmálum, en ekki eftir geðþótta glæpaflokks.

Við erum bara 260.000 manna þjóð og getum aðeins framleitt vörur fyrir lítið brot af heiminum. Við eigum endalausa kosti í löndum, sem stunda heilbrigða viðskiptahætti og fara eftir lögum og rétti. Við þurfum því ekki að taka áhættu af geðþóttaviðskiptum við Kína.

Glæpaflokkar eru víðar við völd en í Kína. Við skiptum okkur ekki af slíku, enda viljum við síður blanda viðskipti stjórnmálum. Við áttum til dæmis mikil viðskipti við Sovétríkin sálugu, áður en þau hurfu snögglega af sjónarsviðinu sællar minningar.

Munurinn á Kína og öðrum slíkum ríkjum er, að ráðamenn í Kína eru jafnan reiðubúnir að taka viðskiptin í gíslingu til að reyna að ná markmiðum sínum í utanríkismálum. Þess vegna eru viðskipti við Kína allt önnur og áhættusamari en þau voru við Sovétríkin.

Fyrr eða síðar kasta Kínverjar af sér oki glæpaflokksins og koma á heilbrigðum viðskiptum við umheiminn. Fram að þeim tíma ætti íslenzk kaupsýsla ekki að kosta miklu til áhættusamra viðskipta og snúa sér heldur að réttarríkjum viðskipta á borð við Taívan.

Eðlilegt framhald af uppákomu vikunnar í sendiráði Kína er, að sendiherrann verði látinn fara og beðið verði um annan, sem veit meira um, hvað teljist til mannasiða í umheiminum. Virðing og sæmd fer ekki eftir afli, heldur eftir framgöngu og framkomu hvers og eins.

Sendiherra Kína á Íslandi hefur áður gerzt brotlegur við mannasiði. Hann er fyrir löngu orðinn þaulsætnari hér á landi en viðurkvæmilegt má teljast.

Jónas Kristjánsson

DV