Bosníu verði skipt í þrjú ríki

Greinar

Ljóst er orðið, að engin ákvæði Dayton-samkomulags vesturveldanna og málsaðila í Bosníu ná fram að ganga. Ekkert hefur gengið að sameina landið í eitt ríki. Ekkert hefur gengið að hafa hendur í hári stríðsglæpamanna. Ekkert hefur gengið að byggja upp stofnanir lýðræðis.

Þjóðahreinsun málsaðila var að mestu lokið, þegar Atlantshafsbandalagið drattaðist á staðinn. Menn skera ekki lengur hver annan á háls. Deila má svo um, hvort það sé að þakka nálægð Nató eða þeirri staðreynd, að málsaðilar búa nú að mestu hver í sínu lagi.

Hitt er víst, að setuliðið verður einhvern tíma að fara og að þá hefst blóðbað að nýju, meðan arftakaríki Bosníu eru að laga landamæri sín. Setuliðið fer, af því að bandaríska þingið mun ekki sætta sig við langvinna þátttöku Bandaríkjanna í misheppnaðri aðgerð.

Þegar það hentar einhverjum málsaðila í Bosníu, munu nokkrir bandarískir hermenn falla í valinn og Bandaríkin fara á taugum, eins og þau gerðu í Líbanon og Sómalíu. Bandaríska setuliðið mun þá flýja af hólmi, eins og það gerði á sínum tíma í Líbanon og Sómalíu.

Þá fara evrópsku hermennirnir líka. Málsaðilar í Bosníu verða skildir eftir til að gera út um mál sín með því að skera hver annan á háls. Miklu betra er að skipta landinu áður formlega í þjóðahreinsuð svæði og styrkja fólk til að flytjast til svæða fólks af sama þjóðerni.

Bezt væri að lagfæra landamærin, þótt það kosti enn meiri þjóðflutninga. Þá verður léttara að verja landamærin, þegar ýfingar hefjast um svæði, sem málsaðilar girnast í garði náungans. Vesturveldin gætu meira að segja veitt tímabundna aðstoð við landamæravörzlu.

Vesturveldunum ber nú að játa ósigur sinn og fara að búa jarðveginn undir brottförina. Mikilvægt er að byrja á því að viðurkenna loksins, að sameining Bosníu í eitt ríki er óframkvæmanleg. Bezt er, að þjóðirnar þrjár fái að búa hver út af fyrir sig í eigin ríki.

Frá því að Dayton-samkomulagið var undirritað, hafa aðeins 30.000 minnihlutaíbúar flutzt aftur til fyrri heimkynna, en 80.000 minnihlutaíbúar hafa flúið heimkynni sín. Íbúum blandaðra svæða hefur því fækkað í heild um 50.000 manns við afskipti vesturveldanna.

Þannig heldur flóttamannastraumurinn áfram, en í öfuga átt við það, sem Dayton-samkomulagið gerir ráð fyrir. Bosnía er því hægt og bítandi áfram að breytast í þrjú aðskilin og þjóðahreinsuð svæði, sem hvert fyrir sig lýtur yfirráðum róttækustu stríðsglæpamannanna.

Vesturveldin bættu gráu ofan á svart með því að hefja afskipti af valdastríði geðveikrar kerlingar og geðveiks karls, sem höfðu haft sig svo mikið í frammi í þjóðahreinsunum, að ekki mátti á milli sjá. Plavsic og Karadzic eiga raunar bæði heima í stríðsglæpafangelsi.

Atlantshafsbandalagið og vesturveldin þurfa ekki lengur að sanna sig í Bosníu. Fullreynt er, að afskipti þeirra hafa reynzt gagnslaus með öllu. Niðurlægingin er fyrir löngu orðin að staðreynd, sem ekki verður breytt. Skipulagt undanhald er eina leiðin úr stöðunni.

Atlantshafsbandalagið og vesturveldin áttu valið, þegar Dayton-samkomulagið var ferskt. Með hörku og festu hefði þá verið hægt að knýja það fram. En langvinnur ræfildómur hefur gert ókleift með öllu að reyna að gera það núna, sem þá hefði verið kleift.

Friður er líklegastur í Bosníu, ef þjóðirnar verða algerlega aðskildar í verjanlegum ríkjum og reistar verða voldugar varnargirðingar á landamærum þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV