Feitan lífeyrisgölt er að flá

Greinar

Stórhveli fjármagnsmarkaðarins berjast um þjóðarsálina um þessar mundir. Þau auglýsa grimmt og láta framleiða fyrir sig skoðanakannanir með hlöðnum spurningum til að hjálpa hinum spurðu að komast að niðurstöðu, sem er greiðanda skoðanakönnunarinnar í hag.

Hér er feitan lífeyrisgölt að flá. Lífeyrissjóðir vilja halda fáokunartökum sínum á sparnaði landsmanna. Bankar og nýsprottnar fjármálastofnanir vilja komast að kötlunum. Báðir aðilar vilja stýra innihaldi lífeyrisfrumvarpsins, áður en það verður að lögum.

Fleiri hafa hagsmuna að gæta en þeir, sem fyrirferðarmestir eru í áróðursstríðinu. Einn þessara aðila er ríkisvaldið fyrir hönd skattgreiðenda. Það eru augljósir hagsmunir skattgreiðenda, að fólk leggi svo mikið í sameignarsjóði, að ríkið þurfi ekki að bæta þar við.

Sameignarsjóðirnir hafa þann kost, að þeir greiða fólki, hvort sem það lifir lengur eða skemur og hvort sem það forfallast frá vinnu fyrr vegna örorku eða síðar vegna aldurs. Í sameignarsjóðunum felst trygging, sem sparar ríki og skattgreiðendum velferðarkostnað.

Ríki og skattgreiðendur geta litið svo á, að ekki sé fært að leyfa fólki að afla meiri ávöxtunar í séreignarsjóðum, því að það leiði til þess, að margir éti út slíkan sparnað með óvæntri örorku eða langlífi og verði þá að leita sér velferðar í sameiginlega sjóði þjóðarinnar.

Með núgildandi 10% lífeyrissparnaði í sameignarsjóðum má telja, að hóflegur elli- og örorkulífeyrir fáist af 120.000 króna mánaðartekjum. Þegar slíku tekjumarki er náð, er eðlilegt að fara að gæta fleiri sjónarmiða en hagsmuna ríkis, skattgreiðenda og velferðar.

Eðlilegt er, að sparendur geti við einhver slík mörk farið að ráða eðli sparnaðarins. Það gerist með því að gefa fólki kost á að leggja umframsparnaðinn í séreignarsjóði. Þeir gefa fólki betri ávöxtun en sameignarsjóðir, þegar það er búið að tryggja velferð sína.

Mikilvægt er, sparendur geti valið sér sjóði í báðum kerfum. Lífeyrissjóðum hefur tekizt misjafnlega vel að ávaxta sitt pund. Sparendum og þjóðinni kemur vel, að lélegum sjóðum verði refsað með fólksflótta, en góðir sjóðir verði verðlaunaðir með aukinni aðsókn.

Því miður eru hagsmunir verkalýðsrekenda samofnir hagsmunum þeirra sjálfra sem stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Ótilneyddir sleppa þeir ekki hendinni af stéttarfjötrum, sem þeir hafa lagt á félagsmenn með því að skylda þá til að vera í sjóði stéttarfélagsins.

Bezt væri, að hafa frjálsan markað sameignarsjóða og séreignarsjóða, en skylda sjóðina til að hafa skörp skil milli þessara tveggja deilda. Ennfremur þarf að setja starfsemi sjóða svo strangar og traustar reglur, að ekki sé umtalsverð hætta á, að þeir verði gjaldþota.

Litlar líkur eru á, að samið verði um skynsamlegustu leiðina. Verið er að reyna að bræða saman misjafna hagsmuni og ekki endilega þá, sem mestu máli skipta fyrir sparendur og skattgreiðendur, heldur þá, sem eru mest í þágu fyrirferðarmestu þrýstihópanna.

Niðurstaðan verður jákvæð að því leyti, að sett verða mörk við einhverja krónutölu á mánuði milli verksviðs sameignarsjóða og séreignarsjóða. Hún verður neikvæð að því leyti, að stuðningur verkalýðsrekenda verður keyptur með verndun stéttafjötra í lífeyrissjóðum.

Niðurstaðan verður meira jákvæð en neikvæð, því að hún felur í sér, að jafnóðum verði sparað, en vandanum ekki varpað á skattgreiðendur framtíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV