Ríkið veldur fáokun í flutningum

Greinar

Skipafélögin tvö hafa náð undir sig miklum hluta vöruflutninga á landi í skjóli þeirra sérréttinda að þurfa ekki að greiða virðisaukaskatt af flutningunum. Einyrkjarnir, sem áður stunduðu þessa flutninga, verða að greiða skattinn og eru því ekki samkeppnishæfir.

Virðisaukaskattur til ríkisins er 24,5% af flutningskostnaðinum, það er að segja umtalsverður hluti hans. Þessi mismunun á samkeppnisaðstöðu af völdum ríkisins er því lykill að heljartökunum, sem skipafélögin hafa náð á vöruflutningum á þjóðvegum landsins.

Útþensla skipafélaganna tveggja í vöruflutningum með bílum á landi stafar ekki af, að þau séu samkeppnishæfari en einyrkjarnir í rekstri. Útþenslan stafar eingöngu af gífurlega verðmætum forréttindum, sem skipafélögin njóta, en eigendur flutningabíla ekki.

Fyrir tilstilli ríkisins hefur samkeppnismarkaði þannig verið breytt í fáokun. Hinir tveir stóru hafa rutt litlu körlunum út af markaði að frumkvæði ríkisins, sem ákveður leikreglurnar. Þetta er ný staðfesting á, að skipafélögin eru fremst í flokki gæludýra ríkisins.

Skipafélögin tvö hafa löngum verið hornsteinar forréttindakerfis, sem áratugum saman var kallað helmingaskiptafélagið, en í seinni tíð fremur þekkt sem kolkrabbinn og smokkfiskurinn. Hvort gæludýrið um sig nýtur stuðnings annars ríkisstjórnarflokksins.

Það hefur hamlað framförum í landinu, að mikilvægir þættir viðskiptalífsins lúta ekki markaðslögmálum, heldur lögmálum fáokunar. Skortur á samkeppni gerir þessa þætti mun dýrari en þeir eru í öðrum löndum og veldur atvinnulífi og almenningi miklum kostnaði.

Hóp ástsælustu gæludýranna mynda tvö skipafélög, tvö tryggingafélög, hálft þriðja olíufélag, eitt flugfélag, þrír bankar og eitt hermangsfélag. Milli þeirra eru eignatengsli á ýmsa vegu og þau eiga síðan stóra og smáa hluti í fyrirtækjum í allt öðrum rekstri.

Stærra skipafélagið er þannig aðaleigandi flugfélagsins, sem er síðan eigandi hótela, ferðaskrifstofu og bílaleigu, sem mælt er með við flugfarþega, þegar þeir eru boðnir velkomnir til landsins. Ferðamenn þurfa aldrei að yfirgefa fáokunarhringinn á dvalartíma sínum.

Oft njóta þessi fyrirtæki opinberrar fyrirgreiðslu umfram önnur fyrirtæki, svo sem sýnir mismununin í virðisaukaskatti í landflutningum. Annað dæmi var áratuga einkaréttur á olíuverzlun. Stærsta dæmið var síðan einkaréttur gæludýrakerfisins á áætlunarflugi.

Þegar mismunun af hálfu ríkisvaldsins hefur tryggt gæludýrakerfinu yfirburðastöðu, er stundum fallið frá hinni opinberu mismunun, en í staðinn kemur mismunun, sem byggist á sölu viðskiptapakka, þar sem viðskiptamenn fá afslætti, ef þeir kaupa allan pakkann.

Einkareknar bílaleigur, ferðaskrifstofur og hótel geta ekki keppt við bílaleigu, ferðaskrifstofu og hótel, sem eru innan fáokunarhringsins. Viðskipti innan fáokunarhringsins njóta sérstakra fríðinda, sem eru brot á alþjóðlegum reglum um viðskiptasiðferði.

Yfirtaka skipafélaganna á vöruflutningum á landi er dæmi um ástand, þegar báðar leiðir eru farnar samtímis. Annars vegar niðurgreiðir ríkið flutninga á vegum skipafélaganna og hins vegar bjóða skipafélögin viðskiptapakka um flutninga á sjó og landi í senn.

Þetta hafa áratugum saman verið hin raunverulegu stjórnmál landsins. Þau eru pólitíska deildin í starfsemi gæludýranna tveggja, kolkrabbans og smokkfisksins.

Jónas Kristjánsson

DV