Gegnsæ ímyndun þjóðareignar

Greinar

Lög um þjóðareign auðlinda hafsins minna á lög um bann við hundahaldi, sem fólu í sér, að hundahald var þá fyrst opinberlega leyft. Í upphafsgrein hundalaganna var sagt, að hundahald væri bannað, en allar hinar greinarnar fjölluðu um framkvæmd hundahalds.

Þegar Alþingi setur lög um afhendingu auðlinda hafsins í hendur fárra, hefjast þau lög einnig alltaf á málsgrein um, að auðlindirnar séu eign þjóðarinnar. Síðan fjalla allar hinar greinar laganna um, hvernig útgerðarmenn eigi þessar auðlindir í raun.

Síðast á þessu ári samþykkti Alþingi lög um, hvernig veðsetja megi eignarhald útgerðarmanna á auðlindunum. Þegar stuðningsmenn eignarhalds þjóðarinnar kvörtuðu, var þeim bent á, að í upphafi laganna stæði skýrum stöfum, að þjóðin ætti auðlindirnar!

Þetta minnir líka á skáldsöguna “1984″ eftir George Orwell, þar sem lögregluráðuneytið hét “ástarráðuneyti” og stríðsráðuneytið hét “friðarráðuneyti”. Íslenzkir stjórnmála- og embættismenn hafa náð töluverðri leikni í að gera martröð Orwells að íslenzkum veruleika.

Vafalaust hafa sumir þingmenn verið nógu heimskir til að samþykkja veðsetningarheimildina í góðri trú, en aðrir hafa gert það í markvissum stuðningi við þá, sem veiðileyfin, völdin og peningana hafa. Eignarhald útgerðarmanna er verndað af fulltrúum þjóðarinnar.

Sumir styðja eignarhald hinna fáu á þeim forsendum, að féð haldist heima í héraði. Raunar er svo ekki, eins og dæmin sanna. Kvótar flytjast milli landshluta. Á endanum fara sjóðirnir úr landi, þegar kvótaerfingjar selja og flytjast með gróðann til Karíbahafs.

Eignarhald útgerðarmanna á svonefndum auðlindum þjóðarinnar tekur á sig margvíslegar myndir. Komið hefur í ljós, að þetta eignarhald erfist eins og aðrar eignir. Einnig hefur komið í ljós, að þetta eignarhald er orðið að þungamiðju eignaskipta við hjónaskilnaði.

Sem dæmi um, að þjóðin er farin að átta sig á þessu, hafa menn nú í flimtingum, að senn muni mikill kvóti á Vestfjörðum lenda í höndum hins mikla mannvinar Moons, sem ekur um á tíu kádíljálkum og lætur sanntrúaða Moonista arfleiða sig að eigum sínum.

Sumir hagsmunagæzlumenn útgerðar eru að átta sig á, að svo kunni að fara, að þjóðin sætti sig ekki við, að auðlindunum sé stolið með lögum frá Alþingi. Einn þeirra hefur stungið upp á, að öllum landsmönnum verði send ávísun á kvóta til veiða á norsk-íslenzkri síld.

Stofnað hefur verið félag áhugamanna um, að þjóðin endurheimti aftur auðlindirnar, sem alþingismenn hafa stolið og afhent útgerðarmönnum. Félagið er núna að stofna deildir í einstökum kjördæmum og verður vonandi nógu öflugt til að valda skelfingu pólitíkusa.

Gegnsæ er orðin sú ímyndun, að eignarhald á auðlindunum hafi ekki verið afhent litlum hópi. Núna er hlegið, ef stjórnmálamaður eða embættismaður vísar til lagagreinar um, að þjóðin eigi auðlindirnar. Núna veit almenningur um veðin, arfinn og skilnaðarmálin.

Vegna hinna afkáralegu dæma um raunverulegt eignarhald útgerðarmanna á auðlindunum hefur myndast jarðvegur fyrir þá, sem vilja skipuleggja pólitíska andstöðu við ábyrgðaraðila stuldarins og vilja láta þá svara skipulega til saka í næstu þingkosningum.

Fólk er seinþreytt til vandræða, þótt það telji rangt og ósiðlega að málum staðið. En svo má brýna deigt járn, að bíti. Kannski veldur kvótinn þeim þáttaskilum.

Jónas Kristjánsson

DV