Símgjöldin hækka

Greinar

Breytingar á gjaldskrá símans verða notaðar til að afla símanum meiri tekna. Það er eins konar náttúrulögmál, sem hefur haldizt óbreytt í manna minnum. Ríkisfyrirtæki, sem ekki þurfa að stunda samkeppni, breyta gjaldskrám á þann hátt, að það auki tekjurnar.

Síðan ímyndarfræðin hélt innreið sína í rekstur slíkra fyrirtækja, er þess jafnan gætt að hafa eitthvert girnilegt agn á króknum. Að þessu sinni felst það í sameiningu landsins í eitt gjaldsvæði. Það felur í sér, að ódýrara verður en áður að hringja milli landshluta.

Í fámennum landshlutum, þar sem menn þurfa mikið að sækja út fyrir landshlutann, getur þetta leitt til lækkunar símreikninga. Hafa verður þó í huga, að mikið af slíkum símtölum er á grænum númerum og dragast því frá símtölum milli svæða í slíkum samanburði.

Ef samtöl innan svæðis eru lögð á aðra vogarskálina og á hina samtöl utan svæðis önnur en við græn númer, má reikna með, að allur þorri landsmanna muni greiða hærri símreikninga eftir breytinguna. Það er einmitt markmiðið að baki faguryrða um eitt gjaldsvæði.

Samtöl við útlönd verða ódýrari en áður. Hins vegar verða samskipti á netinu dýrari, því að innansvæðislínan vegur þyngra en áður. Þannig hyggst einokunarfyrirtækið ná sér í meira fé út úr nýrri samskiptatækni, sem var farin að ryðja sér til rúms hér á landi.

Við erum orðin kunnug uppstokkunum á gjaldskrám. Þær hafa einkennt einokunarfyrirtæki hins opinbera, svo sem á sviði rafmagns- og hitaveitna. Venjulega er farið hóflegar í sakirnar en síminn gerir nú, enda hafa slíkar breytingar verið háðar pólitísku aðhaldi.

Með breytingu símans úr einokunarstofnun í einokunarfyrirtæki hafa brostið fjötrar, sem áður héldu verðhækkunum í skefjum. Niðurstaðan verður fyrirbæri, sem sameinar verstu galla ríkiseinokunarfyrirtækja og fáokunarfyrirtækja á samkeppnismarkaði.

Með því að hækka gjaldskrár á sviðum, þar sem stofnunin nýtur einokunar, getur hún millifært tekjur í bókhaldi og aflað sér gífurlegs fjár til að halda uppi óheiðarlegri samkeppni við venjuleg einkafyrirtæki á þeim sviðum, þar sem samkeppni fær að ríkja.

Þannig haslar síminn sér völl í netþjónustu og fjölmiðlun í samkeppni við aðra aðila og notar til þess fjármagn, sem streymir stríðum straumum úr einokunarþætti starfseminnar. Þannig fór Mjólkusamsalan á sínum tíma út í brauðgerð og blöndun ávaxtasafa.

Hugsjón einkavæðingar hefur gersamlega úrkynjast hér á landi. Ein þekktasta birtingarmynd hennar er, að tiltölulega mildum ríkisfyrirtækjum er breytt í harðskeytt einokunarfyrirtæki, sem ráðast inn á samkeppnismarkaðinn í skjóli verndaðra einokunartekna.

Hin birtingarmynd einkavæðingarinnar er rússneska afbrigðið, það er að segja einkavinavæðingin, sem felst í, að opinber fyrirtæki eru afhent gæludýrum kerfisins, jafnvel þótt aðrir aðilar bjóði betur. Dæmi um það var salan á síldar- og fiskimjölsverksmiðjum ríkisins.

Segja má, að þessar tvær leiðir séu afbrigði sömu leiðar. Annars vegar eru stofnanirnar afhentar ytri gæludýrum úti í bæ og hins vegar eru þær afhentar innri gæludýrum, það er að segja forstjórahópi, sem notar tækifærið til að margfalda laun sín í kyrrþey.

Gjaldskrárbreyting símans er dæmigerð séríslenzk afurð einkavæðingarinnar. Með sjónhverfingu er settur fagur stimpill á stórfellda hækkun á verði símaþjónustu.

Jónas Kristjánsson

DV