Alþjóðlega yfirlýstur aumingi

Greinar

Mengunarráðherra Íslands og aðrir sóðar stjórnvalda komu frá einni ríkustu þjóð heims og létu sér sæma að haga sér eins og beiningamenn á alþjóðlega loftmengunarfundinum í Kyoto. Að þeirra mati nægir ekki einu sinni sérstök 10% aumingja-undanþága fyrir Ísland.

Að baki mestu niðurlægingu þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi liggur sú skoðun íslenzkra ráðamanna og raunar margra Íslendinga, að bezt sé fyrir okkur að mengun fái að aukast óhindrað. Það sé ódýrast og fyrirhafnarminnst. Það var yfirlýst stefna okkar í Kyoto.

Að baki þessari mengunarvænu skoðun er hin þekkta skammsýni Íslendinga, sem láta sig dreyma um skyndigróða og ganga berserksgang í happdrættum, en geta ekki fyrir nokkurn mun gert sér grein fyrir dýrkeyptum afleiðingum, þegar til langs tíma er litið.

Mengunarráðherrann var ekki að skafa utan af markleysunni, þegar hann sagði í viðtali við DV í fyrradag: “Þó svo að þjóðin vilji ekki lenda undir ís, vill hún þá leggja skipastólnum sínum, leggja öllum bílunum sínum eða vill hún loka iðnaðarfyrirtækjunum.”

Staðreyndin er sú, að Íslendingar geta minnkað loftmengun í landinu án þess að leggja neinu skipi, neinum bíl og neinu fyrirtæki. Ekki þarf einu sinni að hafna nýrri stóriðju. Það eina, sem þarf, er að byrja að vinna að víðtækum mengunarvörnum í landinu.

Laga þarf vélar skipaflotans, svo að þær geti brennt minna óhreinu eldsneyti en svartolíu. Þar sem skipin brenna meira en helmingi allrar olíu á Íslandi, leiðir þessi aðgerð til mikils samdráttar í mengun. Það er hreinn ræfildómur, að taka ekki á þessu máli.

Ennfremur þarf að láta af þeirri firru, að stóriðja sé ókeypis búbót. Hún verður að geta staðið undir fullkomnustu mengunarvörnum, sem völ er á. Og hún verður að geta staðið undir kaupum á mengunarkvótum, að svo miklu leyti sem varnirnar nægja ekki.

Í þriðja lagi þurfum við að vera í fararbroddi þeirra þjóða, sem taka upp rafknúna bíla í stað benzín- og olíuknúinna. Í helztu iðnríkjum heims er unnið að undirbúningi að framleiðslu slíkra bíla. Framfarir eru svo örar, að hagkvæmir rafbílar koma senn á markað.

Í fjórða lagi þurfum við að efla mengunarvarnir í iðnaði nákvæmlega eins og iðnríki heimsins hafa verið að gera í sínum ranni og ætla sér að gera áfram, samkvæmt samkomulaginu í Kyoto. Við þurftum alls ekki að vekja athygli á okkur fyrir einstæðan aumingjaskap.

Fleiri ríki hafa beðið siðferðishnekki en Ísland, þótt hlutur okkur sé verstur. Bandaríkjamenn menga meira á hvern íbúa en aðrar iðnaðarþjóðir og komast upp með að draga minna úr mengun en þær. Þetta er yfirlýsing um, að Bandaríkin hafi látið af siðferðisforustu.

Evrópusambandið hefur hins vegar tekið á sínar herðar siðferðislega forustu fyrir hinum vestræna heimi. Það var eini ríkjahópurinn, sem ekki kom nokkurn veginn tómhentur til Kyoto. Sambandið bauð 15% samdrátt í loftmengun hinna auðugu iðnríkja heimsins.

Um síðir fer svo í þessu máli eins og sumum öðrum, að Evrópusambandið mun með reglugerðum þvinga okkur veinandi og kveinandi til að gera hreint fyrir okkar dyrum. En það er þungt að vera borgari í auðugu þjóðfélagi, sem er alþjóðlega yfirlýstur aumingi.

Stafkarls stígur mengunarráðherrans og sóða hans til Kyoto er botninn á niðurlægingu þjóðar, sem fyrst og bezt var lýst í sögu Guðbergs af Tómasi Jónssyni.

Jónas Kristjánsson

DV