Stjörnuhrap um rennilás

Greinar

Kynlíf er rúmfrekt í bandarísku þjóðlífi. Leiðbeiningarit á því sviði eru jafnan fyrirferðarmikil í efstu sætum metsölulista bóka. Það er til umræðu í tímaritum, sem vilja láta taka sig alvarlega. Næst á eftir ofbeldi skipar það efsta sæti sem aðalefni kvikmynda.

Af bókum og tímaritum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum mætti ætla, að Bandaríkjamenn stundi erfiðisvinnu á þessu sviði. Fólk megi tæpast sjást á almannafæri án þess að stofna til iðkunar frjálsra ásta af ýmsu tagi, þar á meðal hvers konar óvenjulegu tagi.

Daglegt tal er klúrt í Bandaríkjunum. Menn strá um sig dónaskap í samræðum, rétt eins og Íslendingar spakmælum. Skemmst er að minnast Nixons forseta, sem gat varla komið út úr sér heilli málsgrein, án þess að hún væri krydduð klámfengnum áherzluorðum.

Þjóðir, sem hafa samneyti við bandarískt þjóðlíf og bandaríska afþreyingu, verða tæpast klumsa, þótt fréttir berist af því, að forseti Bandaríkjanna þrífi í rennilásinn, þegar færi gefst. Slíkt þykir ekki annað en eðlilegur þáttur atferlis, sem þar er á stalli þjóðareinkennis.

Svo virðist hins vegar sem Bandaríkjamenn sjálfir verði forviða, ef kona sezt í fang forsetaframbjóðanda. Sá varð umsvifalaust að hverfa frá framboði. Og nú er Clinton forseti talinn valtur í sessi, af því að honum hafi ekki tekizt að halda leyndu framhjáhaldi sínu.

Mitterand Frakklandsforseti átti dóttur í meinum, en það komst ekki í hámæli fyrr en að honum látnum og var hún þá orðin uppkomin kona. Slíkt þætti ógn og skelfing í Bandaríkjunum í samanburði við tiltölulega hversdagslegar uppákomur, sem þar eru í fréttum.

Bretar eru eina vestræna þjóðin, sem kemst í hálfkvisti við Bandaríkin í pólitískum vandræðum í kynlífi. Það var lengi afskrifað, sem eitthvert óeðli, sem menn hefðu lært í kynskiptum einkaskólum brezku yfirstéttarinnar. Slíku er ekki til að dreifa í Bandaríkjunum.

Við hljótum að spyrja Bandaríkjamenn, hvort þeir telji frjálslegt kynlíf vera eitthvað til að skrifa um og sýna, tala um og kæra, en hins vegar megi ekki undir neinum kringumstæðum iðka það. Þverstæðan og tvískinnungurinn eru greinilega saman í einni lest þar vestra.

Þetta sérstæða ástand getur leitt ístöðulitla stjórnmálamenn á villigötur meinsæris. Clinton er kjörið fórnardýr slíkra vandræða. Hann er maður, sem skiptir sífellt um skoðun, ef hann hefur nokkra, og skoðar sjálfan sig sífellt í spegli umhverfisins, einkum skoðanakannana.

Fólk með veika sjálfsmynd þarf sífellt að sanna sig fyrir umhverfi sínu og fá þaðan staðfestingu, jafnvel á rúmstokknum, ef ekki vill betur. Veik sjálfsmynd er algengur samnefnari bandarísks frægðarfólks, hvort sem er í stjórnmálum eða skemmtanabransanum.

Ekki er eftirsjá að Clinton, ef hann verður felldur á króki meinsæris. Hann er illa hæfur handhafi framkvæmdavalds, á erfitt með að ákveða sig og er sífellt að hlera þjóðarsálina. Stjórnarathafnir hans hafa rambað út og suður. En hann hélt lengi stjörnuskini sínu.

Skyndilegt gengishrun hans ætti að vera Bandaríkjamönnum umhugsunarefni. Af hverju var svona skammt milli vinsælda og útskúfunar? Hvers vegna hefur orðið lítið úr bandarískum forsetum að undanförnu? Er eitthvað bogið við sjónarmiðin, sem ráða vali þeirra?

Bandaríkjamenn ættu að íhuga, hvers vegna hneyksli eru fylgifiskur einnota frægðarfólks, hvort eitthvað sé athugavert við sjálfa dýrkendur stjörnuskins?

Jónas Kristjánsson

DV