Eitt skref á langri leið

Greinar

Einn flokkur var utangátta í prófkjöri Reykjavíkurlistans um helgina, eins konar rótgróin amma ofan úr sveit á heimili með óstýrilátum unglingum. Framsóknarflokkurinn horfði kurteislega á lætin í Gróskuliði hinna flokkanna og studdi áfram sína gömlu fulltrúa.

Sérstaða og innri fjarlægð Framsóknarflokksins á Reykjavíkurlistanum og fjarvera hans af ýmsum sameiningarlistum, sem verða bornir fram víða um land í sveitarstjórnakosningunum í vor, er eitt af nokkrum dæmum um erfiðleika, sem enn eru á vegi sameiningar.

Prófkjörið sjálft var áfangasigur fyrir sjónarmið sameiningar. Annars vegar var þáttakan mikil og hins vegar sigruðu þeir frambjóðendur, sem kenndir eru við sameiningu. Stuðningsmenn sameiningar fjölmenntu og merktu við sína menn þvert gegnum flokkslínur.

Niðurstaðan verður fólki í öðrum sveitarfélögum hvatning til að bjóða fram sameiginlega lista á vinstri vængnum, með eða án Framsóknarflokksins. Ef það gefst vel í sumar, verður það fólki hvatning til að reyna að yfirfæra sameiningarstefnuna yfir í landsmálin.

Enn er svo langt í land, að ótrúlegt er, að sameiginlegir listar verði bornir fram í þingkosningum að hálfu öðru ári. Ef virkin halda þó áfram að falla hvert af öðru, eins og gerðist um helgina í prófkjörinu, kunna aðstæður að verða orðnar gerbreyttar árið 1999.

Þjóðmálastefnan er þröskuldurinn, en ekki framkvæmd hennar. Flokkarnir hafa meira eða minna hagað sér á svipaðan hátt við stjórnvölinn, en hafa sérhæft sig sem þrasflokka í stefnumálum. Milli Alþýðuflokks og Alþýðubandalagsins er himinn og haf í stefnuskrám.

Alþýðubandalagið staðfesti á landsfundinum í nóvember, að flokkurinn stendur föstum fótum í fortíðinni. Það er enn andvígt bandalögum, sem nánst öll Austur-Evrópa heimtar að fá að ganga í. Það efast enn um auðlindagjald og styður eindregið fjáraustur í landbúnað.

Alþýðubandalagið staðfesti á landsfundinum, að það á einkar erfitt með að taka nýjum hugmyndum. Það hafnaði sjónarmiðunum, sem höfðu komið fram í stefnuskrá Grósku. Í rauninni horfir Alþýðubandalagið í máttvana skelfingu á ferlið í átt til sameiningar flokka.

Við undirbúning sveitarstjórnakosninga er unnt að leggja til hliðar Evrópu, Atlantshafsbandalag, auðlindagjald, svo og velferðarkerfi landbúnaðar, sem kemur í veg fyrir velferðarkerfi almennings. Sveitarstjórnasamstarf er bara létt æfing fyrir alvöru landsmálanna.

Sem dæmi um líklega niðurstöðu í stefnu sameinaðs flokks jafnaðarmanna má nefna, að stefnuskrá Grósku segir pass í Evrópumálinu og býður upp á þjóðaratkvæðagreiðslu. Slíkar kosningar eru í sjálfu sér góðar, en koma ekki í staðinn fyrir pólitíska stefnu.

Allar langferðir hefjast með einu skrefi. Hvert skref breytir aðstæðum, sem stuðla að nýju skrefi. Prófkjörið í Reykjavík hefur fyllt sameiningarsinna eldmóði og komið á framfæri nýjum stjórnmálamönnum, sem hugsa og starfa þvert á gömlu flokkslínurnar.

Nauðsynleg forsenda samstarfs og samruna A-flokka og Kvennalista er, að sumt af gömlu forustufólki víki fyrir nýju og annað lagi sig eftir aðstæðum. Það uppgjör var fyrir jól í Kvennalistanum og er að hefjast í hinum flokkunum með sigri nýrra manna í prófkjörinu.

Ekki er síður mikilvægt, að prófkjör Reykjavíkurlistans staðfestir fyrri kannanir um, að betur náist til almennings með sameinuðu framboði en sundruðu.

Jónas Kristjánsson

DV