Regnhlíf flækir mál fyrir flokki

Greinar

Styrkleikahlutföll flokkanna í prófkjöri Reykjavíkurlistans eru ólík því, sem þau voru löngum í borgarstjórn, þegar Alþýðubandalagið átti fjóra fulltrúa, Alþýðuflokkurinn tvo og Framsóknarflokkurinn einn. Nú var jafnvægi með þessum þremur stjórnmálaflokkum.

Í ljósi sögunnar er rangtúlkun, að Alþýðubandalagið sé sigurvegari innan Reykjavíkurlistans. Þvert á móti hafa hinir flokkarnir brúað bilið og standa nú jafnfætis Alþýðubandalaginu. Tveir fulltúar á hvern flokk endurspegla raunveruleg styrkleikahlutföll í prófkjörinu.

Athyglisverðastur er mikill atkvæðafjöldi Framsóknarflokksins í prófkjörinu. Þetta er gerbreytt staða flokksins frá fyrri tíð, þegar hann var talinn merkisberi óbeitar landsbyggðarinar á höfuðborginni. Nú er hann orðinn gjaldgengur á mölinni til jafns við aðra flokka.

Í aðdraganda prófkjörsins voru efasemdir meðal ráðamanna Framsóknarflokksins, þar á meðal flokksformannsins, um aðildina að samstarfinu um Reykjavíkurlistann. Sagt var, að starf og staða flokksins hefði dofnað við þátttöku í öðru afli, sem sogaði til sín athyglina.

Þessi varfærni gagnvart sameiningarhreyfingu vinstri vængsins einkennir Framsóknarflokkinn í flestum öðrum sveitarfélögum. Víðast hvar eru það aðeins A-flokkarnir tveir, sem standa að sameiginlegum lista í anda Grósku, sums staðar með aðild Kvennalistans.

Þegar nær dró prófkjöri, áttuðu ráðamennirnir sig á, að efasemdirnar að ofan gátu leitt til lítils stuðnings við flokkinn í prófkjörinu. Var þá skyndilega snúið við blaðinu, formaðurinn fór að hrósa árangri samstarfsins innan Reykjavíkurlistans og flokksvélin var sett í gang.

Góður árangur flokksins í prófkjöri Reykjavíkurlistans hlýtur að verða ráðamönnum flokksins tilefni bakþanka um, hvort rétt hafi verið að stefna að sérstöku framboði hans í mörgum sveitarfélögum, þar sem A-flokkarnir eru að ná saman um framboðslista.

Ef Reykjavíkurlistinn heldur meirihlutanum í Reykjavík og samstarfslistar A-flokkanna ná góðum árangri í öðrum sveitarfélögum í sumar, mun það setja Framsóknarflokkinn í nokkurn vanda. Hann á þá á hættu að verða minnsta aflið í stjórnmálum landsins.

Fylgi mun þá eflast við það sjónarmið, að hagkvæmara sé að vera aðili að stjórnmálaafli, sem getur haldið til jafns við Sjálfstæðisflokkinn og boðið upp á leiðtoga, sem selur. Slík hyggindi, sem í hag koma, eru einmitt lykillinn að velgengni Reykjavíkurlistans.

Þeirri skoðun vex ásmegin, að hagkvæmnin skuli ráða; flokkum henti að sameinast í regnhlífarsamtökum og velja þeim foringja, sem líklegir eru til að höfða til kjósenda. Þetta sé betri kostur en að reyna að selja kjósendum hvern stjórnmálaflokk fyrir sig.

Í Reykjavík er flokkurinn fyrirferðarmikill í samstarfi, sem hefur væntingar um meirihlutavöld. Annars staðar getur hann orðið minnsta aflið, en þó þriðja aflið, sem getur samið til hvorrar áttar sem er um að verða minni aðilinn í samkomulagi um meirihlutavöld.

Ráðamönnum flokksins geðjast betur að síðari kostinum. Prófkjörið í Reykjavík setti þá í vanda, sem þeir leystu þó með snarræði. Góð útkoma A-flokka í kosningunum í sumar getur aukið vandann og flækt undirbúning næstu þingkosninga fyrir framsóknarmönnum.

Stjórnmála- og viðskiptasaga Vesturlanda segir, að til skamms tíma litið geti minnsta aflið af þremur prúttað um völd, en til langs tíma sé það markað dauðanum.

Jónas Kristjánsson

DV