Vítahringur vangetu og hroka

Greinar

Birtingarmyndir hrokans eru margvíslegar. Stundum telja sumir gikkir nauðsynlegt að ganga svo langt í hrokanum, að þeir missa stjórn á samhenginu og verða vanhæfir í starfi. Þannig hefur farið fyrir yfirmönnum fjármálaráðuneytisins, sem eiga Íslandsmet í hroka.

Umboðsmaður Alþingis hefur kortlagt dæmi um þetta. Í fjórtán mánuði svaraði ráðuneytið ekki bréfi hans um lífeyrissjóð, sem ráðuneytið hafði skaðað. Með því að svara ekki bréfinu í fjórtán mánuði, magnaði ráðuneytið vísvitandi tjónið, sem það olli sjóðnum.

Engar skýringar fengust frá ráðuneytinu, þótt eftir væri leitað. Þegar svar kom loksins, var það ófullnægjandi. Þannig reyndi ráðuneytið að leggja stein í götu umboðsmanns Alþingis og draga úr líkum á, að réttlætið kæmi þolanda rangindanna að gagni í tæka tíð.

Umboðsmaður Alþingis hefur sent forseta Alþingis og forsætisráðherra álitsgerð, þar sem kemur fram, að fjármálaráðuneytið sker sig úr öðrum stofnunum stjórnsýslunnar í hrokafullum viðbrögðum eða öllu heldur viðbragðaleysi við fyrirspurnum umboðsmanns.

Umboðsmaðurinn segir, að borgarar ríkisins eigi rétt á, að stjórnvöld afgreiði mál þeirra, en liggi ekki á þeim langtímum saman, meðal annars til að vinna tíma til að framleiða nýjar leikreglur. Telur hann, að ráðuneytið geti orðið bótaskylt af völdum stærilætis síns.

Álit umboðsmanns er mun harðorðara en tíðkast á vettvangi embættiskerfisins. Það beinist fyrst og fremst gegn fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóra, sem bera beinasta ábyrgð á viðbrögðum ráðuneytisins við tilraunum annarra stjórnvalda til að hafa vit fyrir þeim.

Í Kardimommubæ íslenzka þjóðfélagsins tekur forsætisráðherra við pappírum af þessu tagi, hummar kurteislega og stingur þeim undir stól. Hvorki fjármálaráðherrann né ráðuneytisstjórinn eru látnir taka pokann sinn eins og vanhæfir gikkir í stjórnkerfi annarra ríkja.

Komið hefur í ljós, að stjórnsýsla fjármálaráðuneytisins er í molum. Ekki er svarað mikilvægum bréfum, sem varða stöðu ráðuneytisins í tilverunni. Ráðamenn þess láta geðþótta leysa lög og reglur af hólmi. Þeir tefja réttlætismál meðan þeir eru að smíða nýjar leikreglur.

Á sama tíma og ráðuneytið leggur sig í líma við að valda sumum vandræðum og fjárhagstjóni, fer það yfir lækinn að hjálpa öðrum aðila, sem stundað hefur mestu skattsvik aldarinnar. Ríkisendurskoðandi telur, að ráðuneytið hafi með því valdið ríkissjóði miklu tjóni.

Harðorðar greinargerðir tveggja embættismanna, sem eru óháðir stjórnsýslunni, gefa þá mynd af fjármálaráðuneytinu, að þar fari saman vangeta og hroki. Upphaflega framleiðir ráðuneytið vandræði með vangetu sinni og magnar þau síðan á vængjum hrokans.

Engum, sem horfir á málflutning ráðherrans í sjónvarpi, dylst, að þar fer persónugervingur hrokans. Langar setur hans í ráðuneytinu hafa magnað svipaðar tilhneigingar æðstu embættismanna þess og framkallað þá meinsemd, sem ráðuneytið er orðið í stjórnsýsluni.

Hroki byrjar á þeirri ranghugmynd, að menn viti og geri betur en aðrir. Þegar hrokinn magnast, gerir hann þá ófæra um að taka ráðum og sönsum og leiðir þá út í ófærur. Afleiðingin verður fljótlega sú, að gikkirnir vita minna og skila lakara starfi en aðrir.

Ráðuneytið er læst á vítahring vangetu og hroka, þar sem hvort leiðir af hinu. Vítahringurinn verður aðeins rofinn með mannaskiptum á æðstu stöðum.

Jónas Kristjánsson

DV