Rófan dillar hundinum

Greinar

Þrjár ástæður valda því, að stjórn Bandaríkjanna getur ekki beitt hervaldi til að knýja Saddam Hussein Íraksforseta til að leyfa fullnægjandi eiturvopnaleit að fyrirmælum Sameinuðu þjóðanna. Vegna þeirra eru aðstæður núna lakari en við upphaf Persaflóastríðs.

Ein ástæðan er sagnfræðileg og ekki breytanleg. Hún felst í örlagaríkum mistökum, þegar bandaríski herinn hætti í miðju Persaflóastríði, lýsti yfir sigri og fór heim. Hinn yfirlýsti sigurvegari reyndist ekki hafa þau tök á framhaldi málsins, sem hann taldi sig hafa.

Ekki reyndist hægt að framfylgja eftirleik stríðsins, því að Saddam Hussein tók ekki mark á niðurstöðunni og komst upp með það. Þáverandi Bandaríkjaforseti skildi ekki, að enginn árangur mundi nást án þess að hrekja glæpaflokk Saddams Husseins frá völdum.

Ráðamenn Bandaríkjanna skildu ekki, að Saddam Hussein Íraksforseti lætur aldrei beygja sig og að honum verður aldrei þröngvað til uppgjafar á neinu sviði. Þeir skildu ekki, að hann lítur á sérhverja tilraun til málamiðlunar, sem veikleikamerki andstæðinganna.

Af þessari ástæðu er herstyrkur Íraks svipaður og hann var fyrir stríð og efnavopnabirgðir Saddams Husseins eins uggvænlegar og þær voru þá. Á hinn bóginn eru tækifæri vesturveldanna til að heyja stríð gegn honum mun þrengri en þau voru fyrir stríð.

Þar koma til sögunnar önnur og þriðja ástæðan. Önnur ástæðan er óviðráðanleg. Hún felst í, hversu auðvelt er að kúga Vesturlönd í mannúðarmálum. Það er list, sem Saddam Hussein kann vel og hefur beitt til að veikja stuðning almennings við stefnu vesturveldanna.

Saddam Hussein tekur einfaldlega þjóð sína í gíslingu. Það litla, sem hún aflar sér, tekur hann til að byggja ótal hallir handa sjálfum sér. Hún sveltur hálfu hungri og hana skortir heilbrigðisþjónustu. Hann kennir síðan viðskiptabanni Vesturlanda um hörmungar hennar.

Þessi gíslataka hefur heppnazt. Góðviljað fólk á Vesturlöndum heimtar, að tekin verði upp hefðbundin viðskipti við Írak, svo að póltísk deila komi ekki niður á almenningi í landinu. Þetta hefur fordæmisgildi og mun hvetja aðra harðstjóra til svipaðrar gíslatöku.

Þriðja og síðasta ástæðan er viðráðanleg. Hún felst í vanhelgu bandalagi Bandaríkjanna og Ísraels, sem hefur magnazt í tíð núverandi Bandaríkjaforseta. Ísrael er fjárhagslegur og hernaðarlegur skjólstæðingur Bandaríkjanna og notfærir sér aðstöðuna til yfirgangs.

Núverandi stjórn Ísraels hefur þverbrotið Óslóar-samkomulagið um friðarferli í Palestínu og hyggst koma í veg fyrir það. Hún stundar póltísk, efnahagsleg og félagsleg hryðjuverk gegn Palestínumönnum. Í skjóli Bandaríkjanna er hún andstyggð allra góðra manna.

Ruddalegur yfirgangur Ísraels í umhverfi sínu leiðir óhjákvæmilega til haturs íslamskra þjóða á verndaranum að baki, Bandaríkjunum. Því getur Bandaríkjastjórn ekki safnað liði meðal íslamskra ríkja gegn Saddam Hussein Íraksforseta eins og í Persaflóastríðinu.

Rófan dillar hundinum í bandalagi Bandaríkjanna og Ísraels. Með því að láta rófuna ráða, fórnar Bandaríkjastjórn vestrænum hagsmunum í heimi íslamskra ríkja. Með því glatast brýn tækifæri til að koma á sögulegum sáttum milli Vesturlanda og íslamskra ríkja.

Bandaríkin hafa tekið bandalag við hryðjuverkasinnað smáríki fram yfir stærri hagsmuni og geta því ekki lengur reitt sig á Saudi-Arabíu og Egyptaland.

Jónas Kristjánsson

DV