Evran drepur krónuna

Greinar

Evran tekur við sem gjaldmiðill meginlands Vestur-Evrópu um næstu áramót. Hún er þegar farin að stýra hagþróun álfunnar, einkum þeirra ríkja sem áður áttu bágt með að halda aga. Þau stefna nú öll ótrauð að því að hafa komið málum sínum í lag í tæka tíð.

Evran heldur raunar saman sundurleitri ríkisstjórn ólífubandalags Prodis á Ítalíu. Innan bandalagsins eru margir kröfugerðarmenn á vinstra jaðri stjórnmálanna, en þeir hafa hægt um sig, af því að þeir vilja, að Ítalía fái að vera með í sameiginlegum gjaldmiðli Evrópu.

Svipaða sögu er að segja í Frakklandi. Evran knýr hægri forsetann Chirac og vinstri forsætisráðherrann Jospin til að starfa saman að því að hafa hemil á skuldum og hallarekstri ríkisins. Í flestum ríkjum evrunnar er andstaða við hana aðeins yzt á hægra kanti.

Evran stýrir óbeint hagþróun Íslands. Ósjálfrátt hafa viðmiðunarmörk fyrir þátttöku í henni orðið að markmiðum stjórnkerfisins og Seðlabankans. Þótt Ísland taki ekki upp evru sem gjaldmiðil, vilja menn, að hagþróun landsins standist kröfur um aðild að henni.

Ríkisskuldir eru komnar niður fyrir evrumörk, 60% af vergri landsframleiðslu. Verðbólgan er við evrumörk, um 1,5% meiri en í þremur ríkjum, sem hafa minnsta verðbólgu. Langtímavextir eru við evrumörk, um 2% yfir langtímavöxtum þriggja ríkja með lægstu vexti.

Það má hafa til marks um ágæti evrunnar, að hún skuli hafa víðtæk jafnvægisáhrif í Evrópu áður en hún er komin í notkun. Kostir hennar munu svo koma enn betur í ljós eftir áramótin, þegar menn fara beinlínis að nota hana í viðskiptum Evrópu og raunar heimsins.

Samkeppnisstaða fyrirtækja á evrusvæðinu mun batna. Þau þurfa ekki að taka gengisáhættu, kostnaður milliríkjaviðskipta minnkar, verðbólga og vextir lækka og fjármagnskostnaður þeirra minnkar. Evrópubandalagið verður enn meiri efnahagsrisi en áður.

Fyrirtæki í löndum, sem standa utan evrunnar, byrja um næstu áramót að greiða eins konar gjaldmiðlaskatt, það er að segja herkostnað við að reka eigin mynt, með gengisáhættu, gengiskostnaði, vaxtamismun og fjármagnskostnaði umfram þá, sem mega nota evru.

Það stórkostlegasta við evruna er, að hún kemur í veg fyrir, að stjórnvöld í hverju landi fyrir sig geti framleitt efnahagsleg vandræði með atkvæðakaupum af ýmsu tagi. Evran hríðlækkar tjónakostnað þjóða af rekstri ríkisstjórna, sem skipaðar eru skrumurum.

Ef við ímyndum okkur til dæmis, að evran væri gjaldmiðill Íslands, gætu ráðamenn landsins ekki notað uppákomur á borð við óvenjulega mikinn eða lítinn fiskafla til skaðlegra handaflsaðgerða út fyrir evrumörk, að gamalkunnum hætti Steingríms Hermannssonar.

Yrði evran íslenzkur gjaldmiðill, mundi berlega koma í ljós, hversu ábyrgðarlaust er af stjórnvöldum að treysta á sveiflugrein sem undirstöðu hagkerfisins. Evran yrði eins konar hagfræðilegt kennslugagn, sem mundi knýja fram breytta atvinnuhætti tölvualdar.

Um það bil ári eftir að evran hefur verið tekin í notkun hér á landi, mun enginn skilja lengur, hvernig þjóð, sem stundar hlutfallslega meiri utanríkisviðskipti en nokkur önnur þjóð, gat árum saman lifað án hennar og staðið undir herkostnaði af sérstökum gjaldmiðli.

Auðvitað verður evran fyrr eða síðar tekin hér upp. Heimalningar stjórnmálanna geta tafið hana um mörg ár, en þeir hindra ekki innreið hennar að lokum.

Jónas Kristjánsson

DV