Auðlindagjald svæft í nefnd

Greinar

Málamiðlunin innan Alþýðubandalagsins um að drepa auðlindagjaldi á dreif með því að setja það í þverpólitíska nefnd fellur vel að þörfum stjórnarflokkanna fyrir að láta líta svo út sem eitthvað sé verið að gera, þegar ekkert er í rauninni verið að gera.

Þess vegna tóku stjórnarflokkarnir vel í þingályktunartillögu Alþýðubandalagsins þessa efnis. Skipun nefndar er gamalkunn aðferð til að fresta óþægilegum málum fram yfir næstu kosningar, svo að þau verði ekki til trafala og óþæginda í næstu kosningabaráttu.

Víðtækt samkomulag á þingi um þessa tillögu staðfestir um leið, að fleygur er milli Alþýðubandalagsins annars vegar og Grósku, Alþýðuflokksins og jafnaðarmanna hins vegar. Það staðfestir, að A-flokkarnir munu ekki ná saman í landsmálum fyrir næstu kosningar.

Veiðileyfagjald skiptir nú þegar árlega milljörðum í sjávarútvegi. Það greiða allir, sem taka kvóta á leigu eða kaupa hann. Annaðhvort greiða þeir beint leigugjald eða þeir greiða vexti og afborganir af fjárfestingu sinni í aðgangi að skömmtuðum verðmætum.

Núverandi veiðileyfagjald rennur ekki í sameiginlegan sjóð landsmanna, heldur í vasa þeirra, sem leigja út kvóta eða selja hann. Að sinni rennur gjaldið að mestu til aðila innan sjávarútvegs, en smám saman verður það að gjaldi til aðila utan sjávarútvegs.

Það gerist með þeim hætti, að sumir sjá hag sínum bezt borgið með því að hætta útgerð og nota leigu- eða sölutekjurnar annaðhvort í öðrum rekstri eða þá sér til lífeyris. Í báðum tilvikum er fjármagnið notað utan gömlu verstöðvanna, einkum á höfuðborgarsvæðinu.

Núgildandi veiðileyfagjald er ranglátt, af því að það rennur ekki til ríkisvaldsins, sem hefur gert auðlindina verðmæta með því að semja við umheiminn um stóra fiskveiðilögsögu og halda uppi skömmtunarkerfi, sem hefur komið í veg fyrir algert aflahrun.

Eðlilegast væri, að þjóðin nyti í heild ávaxtanna af þessu pólitíska afreki sínu og léti jafnframt markaðinn um að ákveða verðgildi auðlindarinnar að núímalegum hætti. Það gerist með því að ríkið bjóði út kvótann á alþjóðamarkaði og taki hagnaðinn á hreinu.

Því miður rúmast svona stór hugsun ekki í músarholum stjórnmálaflokkanna. Þess vegna er þar aðeins deilt um, hvort eigi að afnema svokallað kvótabrask eða ekki og hvort auðlindagjaldið megi fara út úr sjávarútveginum eða ekki. Um annað er ekki rifizt á Alþingi.

Sumir stjórnarþingmenn vilja breyta núverandi kerfi með því að afnema svokallað kvótabrask og taka upp gjald, sem haldist innan sjávarútvegsins en fari ekki úr honum til annarra þarfa þjóðarinnar. Aðrir eru harðir í hagsmunagæzlu fyrir valdamikla heimamenn.

Stuðningsmenn innangreinargjalds og hagsmunagæzlumenn kvótaeigenda eiga sameiginlega alls kostar við þá, sem vilja, að tekjurnar renni til sameiginlegra þarfa og verði notaðar til að lækka skatta í landinu. Þarna á milli er fleygurinn í pólitísku umræðunni.

Styrkleikahlutföll umræðunnar á Alþingi endurspegla ekki skoðanir kjósenda. Úti í þjóðfélaginu er meiri stuðningur við róttækari breytingar. Þess vegna vill meirihluti stjórnmálamanna drepa málinu sem mest á dreif og setja það helzt í langvinna nefnd.

Umræðan á Alþingi í fyrradag var gagnleg, af því að hún auðveldar almenningi að skilja, hvers vegna eðlilegt auðlindagjald nær ekki fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV