Saddam er sigurvegarinn

Greinar

Kofi Annan gat ekki komið með Saddam Hussein í járnum frá Bagdað. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ekki hermenn, bara umboð til að semja. Ferð hans varð því sigur forseta Íraks, áður en hún var farin, hver svo sem texti samningsins yrði að lokum.

Framkvæmdastjórinn stóð sig vel. Hann fékk forsetann til að samþykkja nánast allt, sem deilt hafði verið um. Eftirlitsmenn samfélags þjóðanna mega skoða leyndarhverfin, sem kölluð hafa verið hallir Saddams Husseins, eins og aðra grunsamlega staði í landinu.

Gallinn við samninginn er, að Saddam Hussein mun ekki taka neitt meira mark á honum en öðrum samningum, sem hann hefur skrifað undir. Forsetinn mun alls ekki efna loforð sín. Hann hefur aldrei í manna minnum efnt eitt einasta loforð, sem hann hefur gefið.

Þetta var raunar vitað, áður en Kofi Annan fór til Bagdað. Ferðin gat ekki leyst nein vandamál og átti ekki að leysa þau. Hún hefur hins vegar ýtt þeim fram á veginn, svo að Bandaríkin geta sennilega sætt sig við þá ódýru aðferð að lýsa yfir sigri og slíðra sverðin.

Fljótlega mun koma í ljós, að steinar verða lagðir í götu eftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna í Írak. Þeir fá ef til vill að skoða einhverjar hallir, þegar búið er að flytja eiturbirgðirnar brott. En þeir verða alltaf stöðvaðir og tafðir nógu lengi, þegar þeir eru orðnir heitir.

Eftir svo sem eitt ár verður komið í ljós, að þráteflið er það sama og það var áður. Munurinn verður einkum sá, að fækkað hefur færum helztu andstæðinga vígbúnaðarstefnu Saddams Husseins á að hafa hemil á getu hans til að valda umheiminum vandræðum.

Bandaríkjastjórn er hinn sigraði í málinu. Hún hleypti málinu fram á brún hengiflugs án þess að hafa tök á framhaldinu. Hún lyfti ágreiningnum við Saddam Hussein upp í æðra veldi og eggjaði önnur ríki í eins konar “jihad”, heilagt stríð við hin illu öfl heimsins.

Bandaríkin fengu sanngjarnan stuðning Bretlands og ýmissa fleiri ríkja, svo sem Íslands. Það dugði bara ekki, því að mikilvæg ríki á borð við Frakkland og Rússland, Saudi-Arabíu og Egyptaland þurftu líka að vera með á báti. En slík ríki neituðu alveg að taka þátt.

Bandaríkin geta sjálfum sér um kennt. Þau neyttu ekki meðan á nefinu stóð í Persaflóastríðinu. Bush Bandaríkjaforseti bar ábyrgð á, að sameinaður herafli Vesturveldanna var kallaður heim í miðju kafi, án þess að stjórn Saddams Husseins væri velt úr sessi.

Eftir það var ljóst, að forseti Íraks yrði aldrei knúinn með vopnavaldi til að haga sér að óskum Vesturlanda. Viðskipta- og efnahagsbann er lélegt ígildi styrjaldar og náði ekki tilætluðum árangri. Saddam Hussein tók þjóð sína bara í gíslingu og lét hana svelta heilu hungri.

Reynslan hefur sannfært forseta Íraks um, að eftirgjafir andstæðinga sinna séu veikleikamerki, sem leiði til þess, að knýja megi fram meiri eftirgjafir. Gegn slíkri lífsskoðun duga engir samningar, ekki einu sinni góðir samningar, sem Kofi Annan kemur með frá Bagdað.

Bandaríkin hafa séð gegnum fingur sér við marga geðtrufluðustu afbrotamennina í stétt harðstjóra heimsins og beinlínis varið völd sumra þeirra. Þess vegna fer helgisvipurinn stjórnvöldum Bandaríkjanna ekki vel, þegar þau reyna að blása til heilags stríðs.

Stríðið við Saddam Hussein er tapað. Það tapaðist í Persaflóastríðinu fyrir sjö árum. Samningasigur Kofis Annans í Bagdað hefur engin áhrif á þann sigur.

Jónas Kristjánsson

DV