Að venju slær bæjarstjóri Kópavogs ódýra keilu, þegar hann gerir grín að því, að menntaráðuneytið setji fram skólastefnu, einmitt þegar rekstur skóla sé kominn úr höndum ríkisins í hendur sveitarfélaga. Þetta hljómar vel, en er samt rýrt í roðinu, þegar betur er gáð.
Skólastefna getur falizt í að setja meira eða minna fé í rekstur skóla, en þarf ekki að gera það. Fjölþjóðlegar rannsóknir sýna lítið samhengi milli fjármagns til rekstrar skóla og árangurs þeirra. Hér er ekki unnt að reikna með, að skólar fái stærri sneið af kökunni.
Það gildir um skóla eins og sjúkrahús, að kostnaður þjóðfélagsins við þessar stofnanir er kominn upp að þaki. Það felur í sér, að ekki er pólitísk samstaða um að auka hlutdeild þeirra í þeim takmörkuðu fjármunum, sem til sameiginlegrar ráðstöfunar eru hverju sinni.
Skólastefna menntaráðuneytisins felur í sér breyttar áherzlur, en lítil útgjöld umfram það, sem áður hefur verið ákveðið. Þær fela í sér kostnað við breytta námsgagnagerð og endurmenntun kennara, sem hvort tveggja er fyrst og fremst á verksviði ríkisvaldsins.
Margir aðilar hafa unnið að gerð skólastefnunnar, sem ekki er pólitískt umdeild. Hún felur í sér viðurkenningu skólageirans á, að fyrri áherzlur hafa sumar hverjar ekki staðizt tímans tönn og að tími sé kominn til að rétta af kúrsinn í samræmi við breytta og bætta þekkingu.
Raunveruleg kennsla á í auknum mæli að leysa af hólmi brauð og leiki að hætti Piagets. Enskukennsla á að hefjast í tíu ára bekk, tveimur árum fyrr en nú. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að gera þjóðina gjaldgenga í fjölþjóðlegum samskiptum á stafrænni tölvuöld.
Aukin áherzla verður einnig lögð á stærðfræði og náttúrufræði, sem hingað til hafa verið vanmáttugar í skólakerfinu. Þess er og sérstaklega getið, að saga og landafræði verði sumpart kenndar á eigin forsendum, en ekki bara í samkrulli undir óljósum hatti félagsfræða.
Nýjar námsgreinar eru á stefnuskránni. Þar er gert ráð fyrir kennslu í hyggindum hversdagslífsins, svo sem fjármálum og neytendamálum, réttindum og skyldum fólks. Einnig kennslu í upplýsingum og tækni, svo sem þverfaglega kennslu í tækni við að læra.
Vikið er frá núgildandi staðalstefnu og viðurkennt, að nemendur eru ólíkir einstaklingar, sem hafa ólíkar þarfir. Meiri samfella verður milli skólastiga og oftar tækifæri til að meta stöðuna, til dæmis með samræmdum prófum, sem of lengi hafa hímt í öskustónni.
Æskilegt hefði verið að taka meira tillit til fjölþjóðlegra rannsókna á afkastagetu skóla og breyta áherzlunum enn frekar en gert er í nýju skólastefnunni. En hún er árangur víðtæks samstarfs og dregur dám af meðaltali skoðana, sem komið hafa fram við undirbúninginn.
Ef ríkisvaldið stendur við að endurmennta kennara og bæta námsgögn, er ekki nauðsynlegt, að leggja meira fé í rekstur skóla en ríki og sveitarfélög höfðu áður samið um að gera. Nýja skólastefnan leggur því ekki peningabyrðar á sveitarfélögin og á ekki að gera það.
Hitt er svo rétt, sem sumir gagnrýnendur hafa sagt, að skólastefnan felur í sér ýmsar freistingar til útgjalda. Vafalaust verður þrýst á sveitarfélög að fylla ramma stefnunnar með aðgerðum, sem kosta peninga. Fjölmenn sveitarfélög ráða betur við slíkt en fámenn.
Meðal annars liggur í augum uppi, að lengja þarf skólaárið og koma á samfelldum skólatíma til að ná sama árangri og aðrar þjóðir. Slíkt kostar peninga.
Jónas Kristjánsson
DV