Meðvitundarlaus formaður

Greinar

Bankaráð Landsbankans er hvergi þvegið, hvað þá hvítþvegið, í skýrslu Ríkisendurskoðunar um risnu og laxveiðar Landsbankans. Sama er, hversu oft skýrslan er lesin, niðurstaðan er alltaf sú, að ráðherrar og aðrir, sem slíku hafa haldið fram, fara með rangt mál.

Ekki kemur á óvart, að öflugustu stjórnmálaöfl landsins vilji koma í veg fyrir, að pólitískt valið bankaráð sé látið bera nokkra ábyrgð á því, sem fór fram undir eftirliti þess. Bankaráðsmenn sukktímans verða því varðir fram í rauðan dauðann, einkum formaðurinn.

Hitt kemur á óvart og niðurlægir embættið, að ríkisendurskoðandi skuli ekki segjast gera athugasemdir við þessa túlkun ráðherra, jafnvel þótt hún stangist á við þær reglur, sem gilda í lögum um skyldur stjórna og ábyrgð þeirra á stjórnendum, sem þær ráða til starfa.

Um tvennt er að ræða. Annaðhvort hefur bankaráðið, sem starfaði á tímabilinu 1991­1997, vitað meira eða minna af sukkinu eða verið gersamlega úti að aka og þannig séð verið ófært um að gegna hlutverki sínu. Hvort tveggja er hrein og klár brottrekstrarsök.

Sukkið í Landsbankanum hefur árum saman verið haft í flimtingum úti í bæ og oft komizt á síður fjölmiðla. Það þarf nánast meðvitundarlausa bankaráðsmenn til að átta sig ekki á, að ástæða væri til að rannsaka, hvernig innra eftirliti bankans væri háttað.

Þáverandi formaður bankaráðsins hlaut því að vita, að risna bankastjórnar væri óeðlilega há og að laxveiðar væru óeðlilega miklar, þar á meðal veiðar, sem ekki höfðu viðskiptalegan tilgang, svo sem veiðar með kunningjum bankastjóranna og stjórnmálamönnum.

Þáverandi formaður bankaráðsins hlaut ennfremur að vita, að innra eftirlit bankans heyrði samkvæmt skipuriti undir einn bankastjórann, en ekki bankaráðið. Hann hefði í krafti valds bankaráðsins getað breytt þessu skipuriti, sem lá á hvers manns borði í ráðinu.

Þáverandi formaður bankaráðsins hlaut að vita, að risnubókhaldi bankastjóranna var haldið fyrir utan venjulegt bókhald og falið sérstökum trúnaðarmanni bankastjóranna. Það er grundvallarstarf hvers stjórnarformanns að kynna sér slíka skipulagsbresti.

Þáverandi formaður bankaráðsins hlaut að vita, að bankastjórar voru oft að veiðum í á, sem fjölskyldufyrirtæki eins bankastjórans leigði út. Annaðhvort var hann meðvitundarlaus í sjö ár eða meðsekur um afbrotin, sem framin voru undir verndarvæng hans.

Hreinsun Landsbankans hófst ekki fyrir tilverknað bankaráðsins, hvorki hins gamla né hins nýja, sem er skipað sömu mönnum. Það var Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður, sem sprengdi kýlið. Og það var Sverrir Hermannsson, bankastjóri, sem bað um rannsóknina.

Málefnalega séð eru tveir kostir í stöðu fyrrverandi formanns bankaráðsins. Annaðhvort verður hann látinn víkja úr ráðinu á þeim forsendum, að hann sé óhæfur vegna meðvitundarleysis eða þá að hann verður bæði látinn víkja og sæta kæru vegna vanrækslu í starfi.

Engin málefnaleg forsenda er fyrir þeirri niðurstöðu, að bankaráðsformaðurinn sitji áfram sem óbreyttur ráðsmaður. Það er hins vegar niðurstaðan, sem landsfeðurnir hafa ákveðið, af því að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins er utan og ofan við lög og rétt.

Niðurstaðan er því sú, að bankastjórunum einum er kennt um allt, sem aflaga fór. Þeim er fórnað til þess að draga athyglina frá þeim, sem ábyrgð eiga að bera.

Jónas Kristjánsson

DV