Þeir vissu og þögðu þó

Greinar

Ríkisendurskoðandi vissi í meira en tvö ár af sukkinu í Landsbankanum án þess að gera neitt í því. Hann hefur því hag af, að málið sé einangrað við bankastjórana, sem sögðu af sér. Hann er því ekki lengur marktækur umsagnaraðili um hversu alvarlegt málið sé.

Ríkisendurskoðandi vísar til meintrar verkaskiptingar milli sín og endurskoðanda Landsbankans og enn fremur til þess, að bankastjórarnir hafi lofað bót og betrun fyrir tveimur árum. Hann taldi enga ástæðu til að fylgjast með hvort loforð þeirra yrðu efnd.

Samkvæmt þessu hefur ríkisendurskoðandi talið sig vera eins konar sálusorgara endurskoðanda bankans en ekki eftirlitsmann af hálfu Alþingis. Hvorki bankaendurskoðandinn né ríkisendurskoðandinn létu meðvitundarlaust bankaráð eða Alþingi vita um stöðuna.

Þetta sýnir auðvitað að Ríkisendurskoðun virkar ekki ef nógu hátt settir menn lenda í vafasömum málum. Þetta er umhugsunarefni fyrir Alþingi, sem valdi meðvitundarlausa bankaráðið og býr við ríkisendurskoðanda, sem leynir Alþingi alvarlegum staðreyndum.

Við verðum að muna, að það var ekki Ríkisendurskoðun, sem vakti málið. Það var óbreyttur þingmaður, sem kom skriðunni af stað. Og það var einn bankastjóranna, sem óskaði eftir þeirri rannsókn, sem síðan var falin hagsmunaaðilanum Ríkisendurskoðun.

Fleiri vissu en þögðu þó. Meðal þeirra er núverandi bankaráðherra, sem fór sem óbreyttur þingmaður í lax með einum bankastjóranna á kostnað bankans án þess að neinir viðskiptahagsmunir væru í húfi. Hann vissi vel, hvernig kunningjasiðferðið var í bankanum.

Þótt bankaráðherra vissi þannig af eigin reynslu, að meðvitundarlausa bankaráðið gegndi ekki eftirlitshlutverki sínu, valdi hann sama meðvitundarlausa bankaráðsfólkið í nýtt bankaráð, þegar eigandavaldið var um áramótin flutt frá Alþingi til ráðherrans.

Þannig eru hagsmunir ráðherrans hinir sömu og ríkisendurskoðandans, að málið sé einangrað við bankastjórana og ekki sé horft til þeirra, sem vissu af gangi þess, en gerðu ýmist ekkert í því eða vernduðu ástandið með endurvali meðvitundarlausra bankaráðsmanna.

Bankaráðherrann bætir gráu ofan á svart með því að kasta skít í þann eina bankaráðsmann, sem tók afleiðingum aðgerðaleysis síns með því að segja af sér, eina bankaráðsmanninn, sem tók persónulega ábyrgð á því að hafa ekki verið á vaktinni í bankaráðinu.

Í stað þess að þakka honum fyrir að hafa axlað ábyrgð fyrir hönd hinna, sem ekki hafa enn vaknað til meðvitundar um ábyrgð sína, segir ráðherrann, að bankaráðsmaðurinn treysti sér ekki til að axla ábyrgðina. Þetta eru óvenjulega ósvífin og ósanngjörn ummæli.

Með skítkasti sínu hefur bankaráðherrann niðurlægt sjálfan sig að ástæðulausu. En það er ekki auðvelt fyrir hefðbundinn pólitíkus að láta hjá líða að reyna að hefna fyrir þá uppljóstrun, að ráðherrann hafi hótað ráðsmanninnum uppsögn, ef hann makkaði ekki rétt.

Það gildir jafnt um ríkisendurskoðandann og bankaráðherrann, að þeir hafa árum saman vitað um spillingu Landsbankans og haft aðstöðu til að gera eitthvað í málinu, en látið undir höfuð leggjast að gera það. Báðir virðast því vera sekir um vanrækslu í starfi.

Þetta skýrir fyrir öllum, sem vita vilja, hvers vegna málinu hefur verið beint í þann farveg, að allt vont sé bankastjórunum að kenna og alls engum öðrum.

Jónas Kristjánsson

DV