Hrepparenningarnir

Greinar

Umhverfisráðherra hefur fengið snert af góðvild og lagt fram skyndifrumvarp um, að þéttbýlið og Vestfirðir fái einn sjötugasta hluta af áhrifarétti dreifbýlisins á skipulag hálendisins. Áður hafði verið gert ráð fyrir að dreifbýlið eitt réði öllu um þetta skipulag.

Samkvæmt áður fram komnu frumvarpi félagsmálaráðherra til sveitarstjórnarlaga á öll stjórnsýsla og skipulag hálendisins að vera í höndum 40 aðliggjandi sveitarfélaga, sem hvert um sig á að stjórna einum hrepparenningi án tillits til landfræðilegra aðstæðna.

Samkvæmt nýju viðbótarfrumvarpi umhverfisráðherra má fjalla um skipulag hálendisins í nefnd, þar sem sveitarfélögin 40 með 4% landsmanna hafi tólf fulltrúa, en hin sveitarfélögin, með samtals 96% landsmanna, hafi fjóra fulltrúa. Misvægi réttindanna er sjötugfalt.

Þessar ruður af borði umhverfisráðherra duga ekki til að bæta fyrir skelfilegt frumvarp félagsmálaráðherra, sem því miður verður samþykkt á Alþingi innan skamms. Málið er í heild sinni enn sem fyrr ein mesta atlagan að almannarétti frá upphafi Íslandsbyggðar.

Ekki er hægt að sætta sig við, að fulltrúar 96% landsmanna hafi aðeins einn sjötugasta af umsagnaráhrifum á skipulag hálendisins og engan aðgang að stjórnsýslu þess. Skipulag og stjórnsýsla hálendisins á skilyrðislaust að vera í höndum fulltrúa landsmanna allra.

Svo virðist þó, sem þingmenn þéttbýlisins og Vestfjarða ætli flestir að sætta sig við, að sparkað sé í mikinn meirihluta þjóðarinnar á þennan hátt. Enda er raunar löng reynsla fyrir því, að þingmenn þéttbýlisins eru ófærir um að gæta hagsmuna þess, þegar á reynir.

Engin frambærileg rök hafa komið fram gegn kröfunni um, að landsmenn standi allir jafnir að skipulagi og stjórnsýslu hálendisins. Engin frambærileg rök eru fyrir því, að hálendinu sé skipt niður í fjörutíu hrepparenninga, þar sem sérhagsmunir ráða á hverjum stað.

Þar að auki stingur frumvarpið í stúf við þjóðlendufrumvarp forsætisráðherra, sem gerir ráð fyrir, að ríkið kasti eign sinni á allt það hálendi, sem aðrir geta ekki sannað, að þeir eigi. Með því frumvarpi verður ríkið landeigandi að mestum hluta hálendisins.

Þjóðin öll hefur hagsmuna að gæta á hálendinu. Þar eru flestir virkjanakostirnir, sem mestu máli skipta, bæði vatnsafl og jarðhiti. Orkuverin munu hvert fyrir sig þurfa að sæta fjárkúgun nokkurra hreppa, svo sem við þekkjum frá Blönduvirkjun í nágrenni Höllustaða.

Þjóðin hefur öll beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta af ferðamennsku á hálendinu og margvíslegra óbeinna hagsmuna af lífsgæðum, sem tengjast hálendinu, þótt þau verði ekki metin til fjár. Þess vegna á öll þjóðin að hafa sama áhrifarétt á hálendinu.

Þjóðlendufrumvarpið tekur skynsamlega á skipan margvíslegra hagsmuna á hálendinu, annars vegar ýmissa mannvirkja á borð við orkuver og vegi, og hins vegar hagsmuna náttúruverndar og umhverfismála. Það byggist á rannsóknum og sátt milli sjónarmiða.

Félagsmálaráðherra kastaði hins vegar sínu frumvarpi eins og olíu á eld umræðunnar um réttarstöðu fólks eftir búsetu og á eld umræðunnar um mannvirki og umhverfi á hálendinu. Um það er enginn friður úti í þjóðfélaginu, þótt þingmenn flestir lúti flokksaga.

Þótt Alþingi vilji hrepparenninga, hafa í umræðu fólks úti í þjóðfélaginu orðið ofan á þau sjónarmið, að ekki skuli búa til slíka renninga á hálendinu.

Jónas Kristjánsson

DV