Flokkslausa stefnuskráin

Greinar

Í samantekt af stefnuskrám flokkanna í DV í gær mátti sjá fróðlegan samanburð á stefnu þeirra á ýmsum mikilvægum sviðum. Engin þeirra var sérstaklega girnileg, því að flokkarnir eru of uppteknir við að þjóna því, sem þeir telja, að meintir markhópar þeirra vilji.

Sæmilega stefnuskrá væri hægt að búa til með því að velja mola hér og þar úr stefnu ýmissa flokka. Til að hámarka lífsgæði þjóðarinnar væri þó einfaldast að búa til nýja, sem að flestu leyti siglir fram hjá loforðum flokkanna. Hún gæti litið út á þessa leið:

Við skulum sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evruna sem gjaldmiðil. Við munum fá beina aðild að framförum álfunnar og festa efnahagslegan stöðugleika í sessi. Við munum fá sérákvæði um fisk, sem við þurfum ekki, því að við munum bjóða út veiðileyfi.

Við þurfum ekki að deila um herstöðina á Keflavíkurvelli. Fremur fyrr en síðar áttar bandaríska þingið sig á, að þar megi spara peninga, án þess að áreita byggðastefnumenn neins staðar í Bandaríkjunum. Þá verður herstöðin á Íslandi formálalítið lögð niður.

Við neyðumst þá til að reka Keflavíkurvöll fyrir eigin reikning. Þar með höfum við ekki efni á að reka sérstakan flugvöll fyrir innanlandsflug, hvorki Reykjavíkurflugvöll, Skerjafjarðarflugvöll né Engeyjarflugvöll. Innanlandsflugið verður þá flutt til Keflavíkur.

Við skulum hefja frjálst útboð fiskveiðikvóta, helzt á alþjóðlegum markaði. Við skulum árlega bjóða út fimmta hluta kvótans til fimm ára og setja það að skilyrði, að öllum afla verði landað hér heima. Við munum raka inn peningum á þessu og viðhalda verndarstefnunni.

Við skulum gefa landbúnaðinn frjálsan, þannig að hann megi framleiða eins og honum sýnist og flytja megi inn tollalágar eða tollafrjálsar landbúnaðarafurðir eins og hverjum sýnist. Ekkert mun lækka vöruverð í landinu og bæta lífskjörin eins mikið og þetta.

Við skulum markvisst hvetja til flutnings starfa úr frumframleiðslu á borð við sjávarútveg, landbúnað og stóriðju yfir í þekkingariðnað. Á því sviði mun atvinnutækifærum fjölga mest á Vesturlöndum á næstu árum og þar munu langhæstu launin verða greidd.

Við skulum hætta stóriðjuórum. Álverin og hliðstæðar verksmiðjur kosta gífurlega röskun á náttúru, fjármagni og byggingavinnu, en veita sáralitla vinnu, þegar starfsemin hefst. Við skulum alfriða hálendið fyrir þessum atvinnuvegi, sem á heima í þriðja heiminum.

Við skulum taka upp græna þjóðhagsreikninga, þar sem við metum umhverfi okkar til fjár. Óspillt og ómenguð náttúra er engu ómerkari hluti af lífsgæðum okkar en kaupgeta, vegir, skólar og sjúkrahús. Marklitlir eru þjóðhagsreikningar, sem ekki taka tillit til þessa.

Við skulum taka upp þá byggðastefnu, að byggð haldist á Íslandi sem heild, en ekki í hverjum firði og hverjum dal. Ísland stendur og fellur með, að ekki bresti landflótti í mannskapinn. Litlu máli skiptir hins vegar, hvort fólk flytji sig innanlands úr einum stað í annan.

Við skulum hafa sama, flata tekjuskattinn á vinnu og fjármagni, flatan eignaskatt og flatan vask, en leysa tekjujöfnunarþörfina utan skattkerfisins. Við skulum í staðinn taka upp föst laun fyrir óvinnufær börn, gamalt fólk og öryrkja og kalla það laun en ekki styrki.

Sumir flokkar snerta sum þessara sjónarmiða, en allir eru þeir andstæðir þeim í heild. Ekki hefur enn birzt flokkur, sem getur hámarkað lífsgæði kjósenda.

Jónas Kristjánsson

DV