Hrepparenningar í ólgusjó

Greinar

Sveitarstjórnafrumvarp félagsmálaráðherra verður sífellt umdeildara eftir því sem fleiri kynna sér það. Á fjölmennum fundum ýmissa samtaka er samþykkt að biðja Alþingi um að rasa ekki um ráð fram í vor og leyfa málinu heldur að malla í umræðunni fram til hausts.

Það fer fyrir brjóstið á fólki, að fjörutíu hreppum skuli vera afhent stjórnsýsluvald yfir öllu miðhálendi landsins. Þetta er enda augljóslega ekki sanngjörn skipan mála, því að miklu fjölbreyttari hagsmunir eru í húfi en þeirra einna, sem hafa fé sitt á fjalli á sumrin.

Í fyrsta lagi er óeðlilegt, að landsmönnum skuli vera mismunað eftir búsetu. Það stríðir gegn einu helzta grundvallaratriði lýðræðisins, jafnrétti allra manna. Félagsmálaráðherra er beinlínis að ögra mönnum og efna til óþarfra átaka milli strjálbýlis og þéttbýlis.

Í öðru lagi varðar stjórnsýsla og skipulag miðhálendisins margvíslega hagsmuni, sem síður en svo er sérstaklega gætt af hreppunum fjörutíu. Þetta eru meðal annars hagsmunir orkuvinnslu, ferðaþjónustu, náttúruverndar, útivistar og almennra lífsgæða í landinu.

Allir þessir mismunandi hagsmunir eru ótengdir mismunandi hagsmunum sveitarfélaga. Tilvist þeirra sýnir, að réttlát skipting valds milli sveitarfélaga dugir ekki einu sinni til að ná skynsamlegri niðurstöðu. Hin óstaðbundnu sjónarmið þurfa einnig að hafa vægi.

Af þessari ástæðu er heppilegra, að miðhálendið sé ein stjórnsýslueining fremur en fjörutíu og að ríkisvaldið skipi því stjórn með aðild fulltrúa orkuvinnslu, ferðaþjónustu, náttúruverndar, útivistar og almennra lífsgæða, auk aðildar fulltrúa samtaka sveitarfélaga.

Svokölluð málamiðlun umhverfisráðherra um skipun umsagnarnefndar með sýndaraðild fulltrúa þéttbýlis er verri en engin breyting. Sú tillaga um einn sjötugasta hluta úr atkvæðisrétti er blaut tuska í andlit þeirra, sem kvarta um misvægi atkvæða eftir kjördæmum.

Furðulegast við þetta er, að þingmenn, sem beinlínis eru kjörnir á svæðum, er frumvarpið gerir áhrifalaus, skuli ekki gæta betur hagsmuna umbjóðenda sinna en þeir hafa reynzt gera. Þeir verða vafalaust minntir á eymd sína, þegar dregur að næstu þingkosningum.

Meðal þingmanna, sem vilja knýja þetta mikla óréttlætismál í gegn strax í vor, þvert á vilja flestra þeirra, sem fjalla um málið utan þingsala, eru Sif Friðleifsdóttir fyrir Framsóknarflokk, Ögmundur Jónasson fyrir Alþýðubandalag og Pétur Blöndal fyrir Sjálfstæðisflokk.

Afstaðan til frumvarps félagsmálaráðherra skiptist nánast eftir hreinum flokkslínum, en ekki kjördæmum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Alþýðubandalagsins styðja frumvarpið, en þingmenn Alþýðuflokks og Kvennalista eru andvígir því.

Samkvæmt þessu er mikill meirihluti á þingi fylgjandi skiptingu miðhálendisins í fjörutíu mjóa renninga undir stjórn fjörutíu hreppa, sem fyrst og fremst hafa áhuga á sauðfjárbeit. Þessi mikli meirihluti endurspeglar engan veginn hlutföll sjónarmiða úti í þjóðfélaginu.

Forsætisráðherra leggur svo mikla áherzlu á framgang óréttlætisins, að hann lætur þau boð út ganga, að Alþingi verði látið sitja svo lengi fram á sumar sem dugi til að ljúka umræðu og málþófi um frumvarpið. Hann þarf stundum að láta menn finna, hver valdið hefur.

Alþingismenn hlýða ráðherrunum og hafna röksemdunum. Það verður sorgardagur á hnignunarferli Alþingis, þegar það gerir hrepparenningana að lögum.

Jónas Kristjánsson

DV