Kjósendur í Reykjavík láta kosningabombur ekki raska ró sinni. Samkvæmt skoðanakönnun DV í gær hafa hlutföll framboðslistanna aftur fallið að fyrra horfi. Efasemdir sumra kjósenda um ábyrg fjármálaviðhorf Reykjavíkurlistans entust ekki út vikuna.
Með ró sinni eru kjósendur ekki að segja, að óreiða í fjármálum manna sé þolanlegur grunnur stjórnmálaframa þeirra hjá borginni. Kjósendur eru fyrst og fremst að segja, að tímasetning bombunnar sé röng. Hún sé augljós kosningabomba, hver svo sem málsefnin séu.
Þetta er skynsamleg afstaða kjósenda. Í kosningahríð er ekki auðvelt að greina á milli gerningaveðurs og raunverulegra vandræðamála. Fólk vill fá nægan tíma til að taka afstöðu til slíkra mála. Það vill ekki láta stilla sér upp við vegg á lokastigi kosningabaráttunnar.
Í fljótu bragði virðast mál Helga Hjörvar léttvægari en tveggja athafnamanna, sem urðu valdamenn í Hafnarfirði og Kópavogi, þótt þeir hefðu lent í erfiðleikum í atvinnurekstri. Kópavogsbúar hafa raunar gert Gunnar I. Birgisson að pólitískum leiðtoga bæjarins.
Mál Hrannars B. Arnarssonar vekur hins vegar spurningu um, hvort um mynztur sé að ræða fremur en einstök tilvik. Það er spurning, sem Reykjavíkurlistinn svarar væntanlega sjálfur í logninu eftir kosningar, þegar gerningaveðri kosningabaráttunnar er lokið.
Málsefni kunna þá að reynast rýr í roðinu. Þau kunna einnig að leiða til þess, að heppilegra verði talið að Hrannar segi af sér borgarfulltrúastarfi til að losa Reykjavíkurlistann undan öskufallinu. Ótímabært er að spá núna um niðurstöðu slíkrar athugunar.
Ekki má gleyma, að menn tapa ekki borgaralegum réttindum, þótt þeir fari ógætilega í atvinnurekstri, lendi í vanskilum og nauðarsamningum og séu kærðir út og suður af aðilum úti í bæ. Þeir gætu samt verið hæfir til að taka þátt í stefnumótun sveitarfélags.
Jónas Kristjánsson
DV