Þeir velja sérhagsmunina

Greinar

Þegar landsfeður okkar velja milli almannahagsmuna og sérhagsmuna, hallast þeir yfirleitt á sveif með hinum síðarnefndu. Til dæmis þóttust þeir vera að staðfesta þjóðareign á auðlindum hafsins, en voru í rauninni að afhenda útgerðarmönnum eignarhaldið.

Nýjasta dæmið af þessu tagi er stjórn hálendisins, sem landsfeðurnir hafa afhent fjörutíu fámennishreppum í fjörutíu hrepparenningum, þótt mótmælabylgja hafi risið með þjóðinni. Hún hefur skollið á daufum eyrum landsfeðranna og tindáta þeirra á Alþingi.

Skoðanakannanir sýna yfirgnæfandi andstöðu þjóðarinnar við þennan gerning. Flestar stofnanir og samtök eru sama sinnis og þjóðin, þótt þær séu ósammála um aðra þætti hálendismála. Landsfeðurnir þrýstu samt málinu gegnum málþóf á Alþingi.

Landsvirkjun og vegagerðin vilja framkvæmdir á hálendinu, náttúruverndar- og ferðamálastofnanir hafna þeim. Þótt þessir aðilar séu á öndverðum meiði, eru þeir sammála þorra þjóðarinnar um, að stjórnsýslan sé betur komin í höndum ríkisins en hreppanna.

Fundaályktunum og mótmælum rigndi yfir alþingismenn, ekki sízt þá, sem kjörnir voru af umbjóðendum utan fámennishreppanna fjörutíu. Samt barði forsætisráðherra í borðið og sagðist láta þingið sitja svo lengi fram eftir sumri sem þyrfti til að koma málinu fram.

Stundum eru almannahagsmunir þögulir, en sérhagsmunir háværir. Slíku var hvorki til að dreifa, þegar auðlindir hafsins voru afhentar útgerðarmönnum, né þegar auðlindir hálendisins voru afhentar fámennishreppunum fjörutíu. Skýringin á þrjózkunni liggur dýpra.

Þeir landsfeður, sem nú sitja að völdum, og þeir, sem áður hafa setið þar, vita, að almenningur refsar þeim ekki fyrir að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni. Menn æmta um stund, en láta síðan reka sig í hefðbundna dilka, þegar til kastanna kemur.

Sauðfjáreðli almennings lýsir sér í fleiri myndum. Menn gráta hástöfum yfir meðferð tryggingafélaga á sér. Þegar samtök bíleigenda fá nýtt tryggingafélag til að bjóða betri kjör, færa bíleigendur ekki tryggingar sínar, heldur bíða eftir lækkun gömlu kúgaranna sinna.

Af því að íslenzkir neytendur vilja áfram vera hjá kúgurum sínum, fást nýir aðilar tæpast til að koma inn á fáokunarmarkaðinn hér á landi. Af því að íslenzkir kjósendur vilja áfram styðja kúgara sína, endurspegla íslenzk kosningaúrslit einhver af fyrri úrslitum.

Skeytingarleysi neytenda og kjósenda um almannahagsmuni kastar landsfeðrum í faðm sérhagsmuna. Því er ekki hægt að kenna fyrrverandi og núverandi landsfeðrum einum um ofurvald sérhagsmunanna. Neytendur og kjósendur geta sjálfum sér um kennt.

Á grundvelli þekkingar landsfeðra á sauðfjáreðli kjósenda hefur verið byggt upp svonefnt ráðherralýðræði. Það er séríslenzkt fyrirbæri, þar sem framkvæmdavaldið lætur löggjafarvaldið færa sér vald til að þjónusta sérhagsmuni eftir geðþótta landsfeðra á hverjum tíma.

Þannig hefur verið byggt upp opinbert kerfi banka og sjóða, sem hefur á þessum áraug brennt nokkrum tugum milljarða í þágu gæludýra af ýmsu tagi. Þannig er milljörðum brennt á hverju ári í þágu fyrirtækja og stofnana, sem hvíla á herðum landbúnaðarins.

Íslenzk stjórnmál snúast einkum um sérhagsmuni, aðgang stjórnmálamanna að valdi til geðþóttaákvarðana um afhendingu almannagæða í hendur gæludýra.

Jónas Kristjánsson

DV