Andvana fæddur flokkur

Greinar

Svigrúm ætti að vera fyrir nýjan stjórnmálaflokk við aðstæður, þar sem gömlu flokkarnir taka annaðhvort sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni eða hafa forsögunnar vegna ekki traust fólks til að gæta almannahagsmuna, þótt þeir þykist ætla að gera það.

Skoðanakannanir sýna, að mikill meirihluti fólks er ósáttur við, að auðlindir sjávar séu afhentar fámennum hópi útgerðarmanna og gangi þar kaupum og sölum og meira að segja í arf. Stjórnarflokkarnir og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn hunza óbeitina á þessu.

Skoðanakannanir sýna, að mikill meirihluti fólks er ósáttur við, að ósnortnum víðernum hálendisins sé skipt í fjörutíu renninga handa fámennustu sveitahreppunum til að ráðskast með. Stjórnarflokkarnir og ýmsir stjórnarandstöðuþingmenn hunza óbeitina á þessu.

Hingað til hafa flokkarnir skákað í því skjólinu, að fólk hefur skammvinnt minni. Þegar kemur að kosningum, láta flestir smala sér í gömlu dilkana, þótt þeir hafi áður verið ósáttir við löngu gleymt mál. Þess vegna eru sérhagsmunamálin keyrð áfram á Alþingi.

Stundum hafa menn stutt rokuflokka inn á þing, ekki með varanlegan stuðning í huga, heldur sem refsingu gamla flokksins, afmarkaða í tíma. Þannig hafa nýir flokkar risið og hnigið, af því að kjósendur þeirra voru undir niðri áfram tryggir fylgismenn annarra flokka.

Reynslan sýnir líka, að lukkuriddarar nota nýja flokka sér til pólitísks framdráttar og reynast gjarna illa, þegar þeir fá þátt í völdum. Þannig flutu vafasamir fuglar inn á þing og jafnvel upp í ráðherrastól í skjóli tímabundinna vinsælda flokks Alberts Guðmundssonar.

Stjórnmálaflokkur Sverris Hermannssonar mun aldrei ná svo langt, þótt hann kunni að raka saman fylgi fyrir vestan og reyna að virkja andstöðuna við framsal almannahagsmuna. Kjósendur utan Vestfjarða munu flestir sjá gamla, spillta stjórnmálagosann á ferð.

Vestfirðingar eru ekki að gæta almannahagsmuna í andstöðunni við kvótakerfið. Þeir eru að reyna að ná meiri veiðiréttindum til Vestfjarða. Þeir eru reiðir stjórnvöldum fyrir samdrátt vestfirzkra veiðiheimilda, en eru engan veginn að reyna að bæta kerfið.

Við verðum að gera skýran mun á vestfirskri andstöðu við núverandi kvótakerfi og andstöðu þjóðarinnar við afsal auðlinda í hendur útgerðarmanna. Flokkur Sverris Hermannssonar mun ekki gæta almannahagsmuna, hvort sem hann þykist ætla það eða ekki.

Margir þakka Sverri fyrir að hafa veitt þjóðinni innsýn í ýmsa aðra þætti sérhagsmunagæzlu stjórnmálaflokkanna. Margir njóta þess að sjá Finn Ingólfsson, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson engjast á þingi út af uppljóstrunum Sverris um innviði kerfisins.

Auðvitað felst ósigur fyrir Finn í því að þurfa að leita uppi tvo lögmenn úti í bæ til að verja rýran málstað sinn eins og hver annar sakborningur, sem fær lögmann til að verja mál sitt fyrir rétti. Allir skúrkar geta fengið lögmenn úti í bæ til að útskýra sakleysi sitt.

En Sverrir er ekki rétti maðurinn til að ryðja um borðum sérhagsmunagæzlumanna í musteri lýðræðisins. Hann er sjálfur einn frægasti hagsmunagæzlumaður landsins og lenti ekki í sveit með hinum réttlátu fyrr en hinir ranglátu höfðu kastað honum fyrir borð.

Þótt íslenzkir kjósendur séu hinir mestu sauðir, munu þeir þó ekki láta bjóða sér hinn gamalkunna Sverri Hermannsson undir sauðargæru almannahagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV