Spurningum sópað af borði

Greinar

Forsætis-, utanríkis- og bankaráðherra hafa hnýtt endahnút á bankamál. Afsögn Sverris og félaga í Landsbankanum verður látin nægja. Ráðamenn Búnaðarbankans munu fá að vera í friði og það sama gerist í Seðlabankanum, þegar svipað sukk kemur þar í ljós.

Málin eru komin í farveg Ríkisendurskoðunar, sem mun komast að raun um, að það sama gildi um Búnaðarbankann og Seðlabankann, að bókhaldslög hafi ekki verið brotin og að bankaráðin séu einfær um að halda uppi nauðsynlegum aga á bankastjórum.

Aðeins eitt mál er í farvegi Ríkissaksóknara, sem mun komast að raun um, að refsivert athæfi hafi ekki verið framið í málefnum Lindar. Það sé ekki refsivert að vera meðvitundarlaus. Það sé ekki refsivert að sukka. Það sé ekki refisvert að stunda óráðsíu í fjármálum.

Niðurstaða hvellsins verður, að mál bankanna verða látin niður falla. Sverri og félögum hefur verið fórnað til að friða fólkið í landinu, en hindruð verður frekari uppstokkun í helmingaskiptafélagi bankakerfisins. Öldurnar mun lægja og allt verða eins og áður var.

Engin tilraun verður gerð til að búa til leikreglur um, hvernig skuli fara með svokallaða gleymsku, sem lýsir sér í vantalningu á sjálftekt eigin hlunninda. Því munu embættismenn áfram gefa rangar upplýsingar. Séu þeir staðnir að verki, segja þeir bara: “Æ, ég gleymdi.”

Engin tilraun verður gerð til að búa til leikreglur um, hversu meðvitundarlitlir eða -lausir mega vera eftirlitsmenn eigenda, svo sem bankaráðsmenn. Þeim mun áfram geta verið algerlega ókunnugt um sukk og óráðsíu í fyrirtækjunum, sem þeir eiga að líta eftir.

Engin tilraun verður gerð til að fá botn í, hvers vegna Ríkisendurskoðandi lætur flest kyrrt liggja, sem ekki varðar beinlínis við bókhaldslög, og hvers vegna honum finnst í lagi, að ofan á laun sín þiggi hann persónulega greiðslur frá fyrirtækjunum, sem hann fylgist með.

Engin tilraun verður gerð til að kanna, hvort bankaráðherra hafi bakað sér siðferðilega ábyrgð með því að gefa Alþingi villandi upplýsingar um stöðu Lindar fyrir tveimur árum og hindra þannig uppljóstrun eins grófasta sukk- og óráðsíumáls áratugarins.

Engin tilraun verður gerð til að kanna þá frétt Sverris Hermannssonar, að reynt hafi verið að koma á samráði milli Eimskipafélags Íslands og hluta af stjórnendum Landsbankans um að gera Samskip gjaldþrota eins og Hafskip höfðu verið áður gerð gjaldþrota.

Engin tilraun verður gerð til að kanna, hvort stjórnmálaflokkar, önnur samtök eða svonefnd gæludýr af ýmsu tagi hafi fengið óeðlilegar fyrirgreiðslur í bönkunum. Enginn botn fæst í, hvernig bankarnir gátu tapað tugum milljarða í útlánum á þessum áratug.

Allt eru þetta dæmigerð verkefni sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis, einnar eða fleiri, að venju vestrænna lýðræðisríkja. Slík nefnd getur fengizt við mál á gráa svæðinu, þar sem bókhaldslögum sleppir og mat á góðum siðum og vinnureglum tekur við.

Slík rannsóknarnefnd Alþingis að vestrænum hætti verður ekki skipuð, af því að ráðherrarnir þrír hafa úrskurðað, að hún sé ólýðræðisleg. Þar með hefur öllum ofangreindum málum verið sópað út af borðinu og ábyrgðin skilin eftir hjá stjórnarflokkunum tveimur.

Enda mundi hrikta í þjóðfélaginu, ef almenningur fengi til dæmis að vita, hvernig pólitískt tengdum bönkum tókst að tapa tugum milljarða á fáum árum.

Jónas Kristjánsson

DV