Naustið

Veitingar

Naustið er í þykjustuleik, hamborgarastaður frá þjóðvegi eitt, sem hefur rambað á vitlausan stað í notalegar og sögufrægar innréttingar við neðanverða Vesturgötu og þykist vera enn fínni en Holtið. Verðlagið er sama og á Holti og matseðillinn telur nærri hundrað rétti, þar á meðal fasana og elg, rétt eins og hér sé eitthvert Maxim’s.

Framboð sautján tegunda villibráðar er hluti af órunum. Á matseðlinum er tekið fram, að villibráðin sé háð árstíðabundnu framboði, en ekki hefur fengizt upplýst, hvenær árstíð fasana og elgs verður í Naustinu.

Stórkarlaleg matreiðsla var einkenni staðarins, nánast tilfinningalaus fyrir samsetningum í bragði eða lit. Hún lagði áherzlu á bragðsterkar sósur og kryddmokstur. Tómatsósa yfirgnæfði glóðarsteiktan silung og kryddjurtasósa yfirgnæfði lambalundir. Villibráðarsósa með svartfugli reyndist vera uppbökuð hveitisósa, þykk og ólystug.

Nöfn rétta og lýsingar eru af handahófi á matseðli. Kjötseyðið reyndist vera þunn sojasósa í ætt við japanska miso, en bragðsterkari og bragðverri. Það, sem heitir íslenzk skelfisksúpa í enska textanum, heitir suðurevrópsk Baskasúpa í íslenzka textanum.

Grafin gæs á stökku blaðsalati var sérkennilegur og ljótur réttur, þar sem ofkryddaðar gæsaræmur lágu ofan á haug af alfaspírum, en alls engu blaðsalati, svo og nokkrum bláberjum. Ofreykt hámeri var líka ofkrydduð, borin fram á mosagrænni sósu.

Kjötstrimlar að mexikóskum hætti reyndust vera þjóðvegar-eitt-gúllas af þykkum og seigum kjötbitum, eins og það var áður en Íslendingar lögðust í pylsur og borgara til að spara tennur og hraða meltingunni.

Svartfugl var borinn fram með soðnum grænmetishaug, sem í hafði verið stungið langri smjördeigssveðju með grænum sykurleka niður eftir annarri hliðinni. Þetta getur hafa átt að vera nútímalistaverk, ljótt og ólystugt.

Vínlistinn er óvenjulegur, byggist að mestu á fjölbreyttu framboði frá fáum framleiðendum og lítt þekktum, eins og konar vínkynning, þar sem tilraunadýrin borga fyrir sig.

Gaman væri að vita, hvað býr að baki stöðugum straumi ferðamanna í Naustið. Einhverjir hljóta að mæla með staðnum og væntanlega á einhverjum forsendum. Ekki er það vegna matarins og ekki út af verðinu, sem er rúmlega 4.200 krónur fyrir þrjá rétti og kaffi.

Tæpast getur það verið vegna þjónustunnar, sem er ættuð frá hamborgarastöðum við þjóðveg eitt og er ágæt sem slík. Maturinn er borinn rösklega á borð, en lítið sinnt um gesti þess á milli. Að ná auga þjóns er nánast útilokað, jafnvel þegar ekkert er að gera.

Miklu hefur verið breytt í innréttingum, meðal annars í aðalsalnum, þar sem nú er gengið niður sjávarmegin eftir krókaleið úr anddyri. Beina leiðin úr anddyrinu liggur hins vegar upp á loftið, þar sem innréttaður hefur verið salur, sem hentar vel, ef heilu rúturnar villast af þjóðvegi eitt.

Jónas Kristjánsson

DV