Vinir Keikós bera ábyrgðina

Greinar

Málum Keikós verður að haga þannig, að Íslandi eða Íslendingum verði ekki kennt um mistök, til dæmis í staðsetningu sjókvíarinnar. Ekki má verða hægt að segja, að allt hafi verið í lagi, meðan hann var fyrir vestan, en síðan hafi allt farið úrskeiðis hér á landi.

Þessi mál eru þannig vaxin, að málefni hafa jafnan og munu áfram víkja fyrir tilfinningum. Sem veiðimannaþjóð höfum við jafnan og munum áfram vanmeta ofsafengnar tilfinningar almennings, einkum vestan hafs, í garð hvers konar hvala, stórra og smárra.

Þótt við séum meira eða minna ekkert nema áhorfendur að sjónarspili Íslandsferðar háhyrningsins, getur reiði almennngs í útlöndum vegna ótímabærs dauða hans hæglega beinzt gegn landinu, sem tók við honum og sem þekkt er að hvalveiðistefnu.

Þess vegna er nauðsynlegt að ganga rækilega frá öllum forsendum. Láta verður aðstandendur Keikós undirrita gögn um, að þeir einir taki alla ábyrgð á ákvörðunum, sem þeir einir hafa tekið, þar á meðal þeirri, að koma háhyrningnum fyrir í Klettsvík.

Óhætt er að segja, að fyrirhuguð staðsetning sjókvíarinnar við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn hafi komið kunnugum á óvart. Menn óttast, að stórbrotið umhverfi Klettsvíkur hafi ráðið því, að skyndilega skiptu vinir Keikós um skoðun og hættu við Eskifjörð.

Tugir skipa sigla um innsiglinguna á hverjum sólarhring, nótt sem nýtan dag. Af því leiðir hávaða og mengunarhættu, auk þess sem árekstarhætta verður, ef einhverjir vinir Keikós frá útlöndum eru að spóka sig við víkina á kajökum, gúmbátum eða jullum.

Mengun getur einnig stafað frá skipum og öðru athafnalífi hafnarinnar í Eyjum, svo og frá skolpi bæjarins, sem rennur því miður óhreinsað í sjó. Íslendingum verður kennt um, ef einhver mengun af slíku tagi gerir frægasta háhyrningi heimsins lífið leitt.

Nauðsynlegt er, að íslenzkir málsaðilar í Stjórnarráðinu og bæjarstjórninni dragi saman upplýsingar um efasemdir af þessu tagi og ýmsar fleiri, svo sem hættuna á fárviðri á þessu svæði, og láti aðstandendur Keikós skrifa undir, að þeir hafi kynnt sér þær.

Engin ástæða er til að efast um, að vinir Keikós séu af heilum hug að reyna að búa honum bærilegar aðstæður. Enginn veit hins vegar, hvað upp á kann að koma, ef illa fer og hver reynir að bjarga sér sem bezt hann getur frá reiði fáfróðs almenningsálits.

Við þurfum líka að gæta okkar á, að eitt skref leiði ekki til annars á þann hátt, að niðurstaðan verði önnur en reiknað var með í upphafi. Sitjum við ef til vill uppi með áhorfendapalla upp eftir öllum Heimakletti, áður en við vitum, hvaðan á okkur stendur veðrið?

Allt mál Keikós er samofin flækja heitra tilfinninga og kaldrifjaðrar peningahyggju. Margir fá glýju í augun, ef þeir sjá sér færi á að taka þátt í að græða á hræsninni, sem jafnan fylgir slíkum þverstæðum. Glýjan sú getur villt mönnum sýn og rænt þá ráði.

Að flestu leyti hafa íslenzkir málsaðilar brugðizt rétt við hugmyndinni um heimflutning hins víðförla háhyrnings. Sjálfsagt er og eðlilegt að reyna að greiða fyrir málinu eins og hægt er að gera innan ramma laga og heilbrigðrar skynsemi. Það hefur verið gert.

Við þurfum bara að hafa skjalfest á hreinu, að þeir, sem einir taka lykilákvarðanir í máli þessu, taki líka einir á sig ábyrgðina af þeim lykilákvörðunum.

Jónas Kristjánsson

DV