Opnum gluggana

Greinar

Í þjóðhagslogninu, sem nú ríkir, er gott tækifæri til að undirbúa næstu skref lands og þjóðar fram á veg. Þótt vel ári í sjávarútvegi, er nú sem endranær nauðsynlegt að efla forsendur, sem geta gert okkur hæfari til að lifa og blómstra í umheimi vaxandi samkeppni.

Ekki er langt síðan talið var eðlilegt eða að minnsta kosti þolanlegt, að verðbólga á Íslandi væri meiri en í nágrannalöndunum og að hér mætti fella gengið nokkurn vegin árvisst. Nú dettur engum í hug, að verðbólga og gengislækkanir séu þolanleg fyrirbæri.

Lengi var það talið jafngilda náttúrulögmáli, að ekki þekktist hér á landi kerfislægt atvinnuleysi. Við komumst svo að raun um það á síðasta áratugi aldarinnar, að atvinnuleysi getur jafnan verið handan við hornið, ef bilun verður í nýsköpun í atvinnulífinu.

Með samanburði við nágranna getum við séð, hvar við stöndum vel að vígi og hvar við þurfum að bæta okkur. Á sumum sviðum erum við í fremstu röð þjóða, en á öðrum sviðum höfum við dregizt aftur úr. Það ætti að vera pólitískt forgangsmál að fjarlægja fótakeflin.

Sem stendur er atvinna góð, enda hefur langtímahagvöxtur numið 4% á ári að meðaltali. Menntunarstig þjóðarinnar er í betra lagi, svo að svigrúm er til að fara inn á nýjar brautir, þegar þær gefast, svo sem erfðagreiningu, hvalaskoðunarútgerð og hugbúnaðargerð.

Af fjölþjóðlegum samanburði má þó sjá, að Ísland er aðeins í þrítugasta sæti í samkeppnishæfni. Við stöndum lakar að vígi en flestar Evrópuþjóðir. Kunnar eru flestar orsakir þess, að við náum ekki ofar á listann, en við gerum bara of lítið til að ryðja þeim úr vegi.

Aðstaða vísinda og tækni er léleg hér á landi. Einkaframtakið lætur sitt eftir liggja á því sviði, ef frá er skilið fyrirtæki Kára Stefánssonar. Ríkið er eini stóri kostunaraðili vísinda og er raunar stöðugt að reyna að spara með því að skera niður útgjöld til vísinda.

Vextir eru um tveimur prósentustigum hærri hér á landi en í nálægum löndum. Sumpart stafar það af óhóflegri þörf lélegra banka og annarra fjármálastofnana fyrir vaxtamismun. Sumpart stafar það af fjárfestingarlegri einangrun landsins og of litlum sparnaði fólks.

Í fjölþjóðlega samanburðinum er það liðurinn alþjóðavæðing, sem er okkur óhagstæðastur. Við tökum minni þátt í efnahagslegu fjölþjóðasamstarfi en nágrannarnir, einkum með því að vera ekki í Evrópusambandinu og taka ekki þátt í evrópska gjaldmiðlinum.

Með þátttöku í Evrópu og evrunni mundum við auðvelda okkur að fást við ýmis önnur vandamál okkar, svo sem of litla fjárfestingu í vísindum og tækni, of háa vexti, of veikburða fjármálaþjónustu, of litlar fjárfestingar af hálfu útlendinga og of mikið vægi frumframleiðslu.

Til að tryggja betur framtíð barna okkar þurfum við að létta af stefnu einangrunar og einstefnu á hefðbundna atvinnuvegi, slípa flæði peninga með því að láta krónuna víkja fyrir evrunni og síðast en ekki sízt með því að ganga í Evrópusambandið, þar sem hlutirnir gerast.

Fyrir Íslandi hefur um langt skeið farið ríkisstjórn hægfara íhaldsmanna og einangrunarsinna, sem einblína á sjávarútveg, neita yfirleitt að ræða hugsanlega aðild að Evrópusambandinu og eru raunar eins og fiskar á þurru landi, þegar þeir stíga á land erlendis.

Við þurfum að brjótast úr þessum viðjum íhalds og einangrunar, opna gluggana til umheimsins og hleypa inn þeim straumum, sem gefast öðrum þjóðum bezt.

Jónas Kristjánsson

DV