Bankar seldir Pétri og Páli

Greinar

Ekki er sama hvernig ríkisbankarnir verða seldir. Við höfum víti einkavinavæðingar að varast, svo sem SR-mjöl, Kögun, Bifreiðaskoðun og Lyfjaverzlun Íslands. Gæludýr stjórnarflokkanna hafa erft einokunarstöðu ríkisins í krafti forgangs, mismununar eða aðstöðu.

Pétur Blöndal alþingismaður hefur lagt til, að tækifærið verði notað til að efla þátttöku almennings í rekstri atvinnulífsins. Hverjum borgara verði gert kleift að kaupa bankahlutabréf í áskrift fyrir 5.000 krónur á mánuði. Þannig verði meirihluta eignaraðildarinnar dreift.

Minnihluti hlutafjárins verði síðan settur á uppboð, þar sem Pétur býst við, að hlutirnir fari á háu verði. Á aðalfundum geti fjölmenn samtök úr hópi almennings att til kapps við fjársterku aðilana, sem venjulega sitja einir að kötlunum, þegar ríkisfyrirtæki eru seld.

Samanburður við útlönd hefur sýnt, að íslenzkir bankar og sjóðir eru mun verr reknir en aðrir. Heimskuleg útlán hafa leitt til mikilla afskrifta sem fjármálastofnanirnar hafa neyðzt til að bæta sér upp með óeðlilega miklum mismun innláns- og útlánsvaxta.

Síðan hefur komið í ljós, að sumir bankastjórar ríkisbankanna hafa verið of uppteknir af að koma sér í fríar laxveiðar og fríar utanlandsferðir, að þeir hafa ekki haft sinnu á að passa upp á útlánin. Ríkisrekstur viðskiptabankanna verður því ekki lengur varinn.

Bankarnir eru svo risavaxin fyrirtæki, að hættulegt er að selja þá í of stórum skömmtum. Þá mun of mikill hluti eftirspurnarinnar takmarkast við helztu fáokunarfyrirtæki landsins, sem mesta peninga hafa til umráða, og verðið taka mið af takmarkaðri eftirspurn.

Með áskriftarsölu til almennings gerir Pétur ráð fyrir, að meiri slagur verði milli fáokunarfyrirtækjanna um afganginn af hlutafénu, þannig að hagnaður ríkissjóðs verði ekki minni, þótt almenningur fái sinn hlut á undirverði, á hálfvirði samkvæmt tillögu Péturs.

Hann vill, að fólki verði bannað að selja pappírana fyrstu tvö eða þrjú árin, svo að það venjist við að eiga hlutabréf og fylgjast með breytingum á verðgildi þeirra. Þannig verði unnt að efla áhuga margra á að halda lengi í bréfin, svo að þau leki ekki inn í fáokunina.

Gott væri að gefa starfsfólki líka tækifæri til að kaupa í áskrift ákveðið magn hlutafjár á föstu undirverði, þannig að forgangsflokkarnir væru tveir, áður en kæmi að hákörlunum, sem berðust á endanum um fjórðung hlutafjárins. Slíkt væri tilbrigði við tillögu Péturs.

Slíkar leiðir hefta getu stjórnmála- og embættismanna og gæludýra þeirra í fáokunarfyrirtækjunum til að misnota einkavæðinguna og breyta henni í einkavinavæðingu. Með slíkum leiðum næst sátt í þjóðfélaginu um annars óvinsæla einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Breyting ríkisfyrirtækja í almenningshlutafélög er aðeins hálf lausnin. Samhliða þarf að haga málum á þann veg, að fyrirtækin haldi ekki áfram að vera einokunarfyrirtæki. Þegar Landssíminn og Íslandspóstur verða seldir, þarf um leið að lina tök þeirra á markaðinum.

Sala ríkisbanka er brýnasti og umfangsmesti þáttur einkavæðingar ríkisfyrirtækja. Mikið er í húfi, að vel takist til. Við höfum tvenns konar víti að varast, víti hörmulegs rekstrar bankanna, og vítin, sem við höfum séð í sölu annarra ríkisfyrirtækja á liðnum árum.

Tillga Péturs felur í sér skynsamlega leið til að dreifa sölunni á langan tíma og efla getu almennings til að keppa við fáokunarfyrirtækin um stjórnartaumana.

Jónas Kristjánsson

DV