Pólitískur flagari

Greinar

Clinton Bandaríkjaforseti er jafn hæfur eða óhæfur til að vera forseti Bandaríkjanna, þótt hann hafi haldið framhjá í einkalífinu einu sinni eða oftar eða hvenær sem færi hefur gefizt. Slíkt gerðu forsetarnir Kennedy og Johnson og voru ekki verri forsetar fyrir það.

Kvennaflagarar geta nýtzt sem pólitíkusar, þótt þeir séu leiðinlegir og vanþroskaðir sem persónur og gersamlega óhæfir sem eiginmenn og fjölskyldufeður. Þótt segja megi allt þetta um Clinton, er ekki sjálfgefið án nánari skoðunar, að hann geti ekki verið forseti.

Það gildir þó um forsetann fremur en um aðra flagara, að sá þáttur persónuleika hans hefur einkennt pólitíska hegðun hans allan stjórnmálaferil hans. Hann hefur sí og æ komizt í siðferðileg vandræði og þjálfað með sér slípaða tækni við að kjafta sig út úr þeim.

Clinton er mikill samskiptatæknir. Hann á auðvelt með að tala fólk til, hvort sem það eru lagskonur eða kjósendur. Hann hefur smám saman talið sér trú um, að sér séu allir vegir færir, hann geti með heiðarlegum svip og liðugu tali logið sig út úr hvaða klípu sem er.

Rannsóknin á meintu misferli forsetans hefur varpað kastljósi á vanþroska forsetans. Hann hefur frá upphafi ferils síns hvað eftir annað lent í vandræðum í einkalífi, í fjármálabraski og í stjórnmálum. Hann hefur sloppið fyrir horn og ekki látið segjast af reynslunni.

Rannsóknin hefur líka varpað kastljósi á frjálslega umgengni Clintons við sannleikann. Honum finnst nóg að reyna að sýna fram á, að tæknilega séð hafi hann ekki farið með ósannindi, þótt ljóst sé, að hann hafi hagrætt sannleikanum til að leiða fólk á villigötur.

Forsetinn hefur reynzt vera langþjálfaður lygalaupur, sem gerir hárfínan og jafnvel lögfræðilegan greinarmun á hreinni lygi annars vegar og hins vegar tilraunum sínum til að komast út úr fjölmörgum persónulegum, peningalegum og pólitískum vanda á lífsleiðinni.

Sem flagari í pólitík og einkamálum er Clinton orðinn að fíkli, sem hvað eftir annað kastar sér út í siðferðileg vandræði af hroka þess, sem telur sig geta kjaftað sig út úr öllum vanda. Hann er flagarafíkill eins og sumir aðrir eru áfengisfíklar, spilafíklar eða kynfíklar.

Nú er allur ferillinn að koma í ljós og taka á sig heilsteypta hryllingsmynd. Forsetinn hefur logið að vinnufélögum sínum, meira að vinum sínum og mest að fjölskyldu sinni. Öllum þessum varð málið ljóst, þegar hann flutti lélegt sjónvarpsávarp sitt á þriðjudaginn.

Ávarpið sýndi líka, að Clinton hefur enn ekkert lært. Hann er enn að fegra hlutina og leita tæknilegra leiða til að villa um fyrir fólki án þess að ljúga beint. Afsökunarbeiðni hans var því gersamlega hol, ein af mörgum áhættum sem flagarinn hefur tekið sem fíkill.

Málið er nú í höndum bandarísku þjóðarinnar, sem hingað til hefur reynzt auðtrúa og haldið tryggð við forsetann eins og konurnar halda gjarna tryggð við flagarann. Andvaralaus hefur hún leyft hinum pólitíska flagara að kjafta sig í tvígang inn í Hvíta húsið.

Sem forseti hefur Clinton haldið mynztri flagarans. Hann stjórnar fáu og snýst eftir vindum hverju sinni, hvort sem þeir koma frá skoðanakönnunum eða álitsgjöfum í umhverfi hans. Markmið flagarans er eitt: Vera vinsæll og halda áfram að vera vinsæll.

Fólk hefur fengið færi að sjá, að ekki er nóg, að menn séu bláeygir og heiðarlegir á svip, einlægir og liðugir í tali, til þess að óhætt sé að fela þeim æðstu völd.

Jónas Kristjánsson

DV