Hard Rock

Veitingar

Tommi er hættur og hávaði hefur aukizt, verð hækkað og gæði minnkað. Innihald hefur vikið fyrir umbúðum, örugg formúla aukinnar velgengni, enda er oftar en áður beðið eftir borðum á Hard Rock Café.

Staðurinn hæfir fólki, sem ekki þekkir annað en skyndibita og vill ekki annað en skyndibita; fólki, sem þolir tvöfalt verð fyrir góða hamborgara og daufa ímynd þess að vera úti að borða. Ósjálfstæðir viðskiptavinir eru ekki beinlínis að kaupa mat, heldur aðgang að þekktum stæl.

Hávaðavænn sogar staðurinn til sín afmælisbörn og túrista, drykkjulið og barnafólk, býður raunar vel þegna barnagæzlu á kvöldin. Ómstríðir hátalarar yfirgnæfa tónlistar-myndbandarásina og barnsgrátinn en eiga í harðri samkeppni við drykkjuliðið.

Hringlaga harðviðarbar úr vörulista hefur hrokkið inn á mitt gólf og storkar upprunalegum rokkminjastíl hússins. Að öðru leyti er húsbúnaður að mestu óbreyttur og þjónusta jafn alúðleg og ágæt sem fyrr.

Hér borga menn 975 krónur fyrir hamborgara og 1090 krónur fyrir samloku, 1750 krónur fyrir aðalrétt og 3170 krónur fyrir þríréttað með kaffi. Aðalréttur og súpa í hádeginu kosta 745 krónur.

Súpa dagsins var í eitt skipti hefðbundin, uppbökuð sveppasúpa og í annað sinn hveitilaus tómatsúpa, hvor tveggja með brúnu fransbrauði. Hard Rock Salat reyndist eins og annað salat hússins vera næsta einfalt jöklasalat, ferskt og hlutlaust.

Nachos voru fyrrum betri, þegar hörðu tortilla-flögurnar voru bornar fram sérstaklega, en ekki í graut með álegginu. Santa Fe-hveitikökur voru bornar fram í stórri eftirréttaskál með jöklasalati, fylltar creole-krydduðu kjúklingahakki.

Fiskur dagsins tókst bezt. Pönnusteiktur karfi með mildri gráðostsósu var mátulega eldaður, svo og grillaður lax með mildri sjávarréttasósu, hvor tveggja fremur mikið pipraður, borinn fram með jöklasalati.

Lasagna dagsins var bragðsterk og kjötmikil, með mjúku hvítlauksbrauði og jöklasalati. Hversdagsleg var grilluð samloka með meyrum kjúklingi, bráðnum osti, lárperumauki og auðvitað jöklasalati.

Faitas var gott, tortilla-pönnukökur í bauk og snarkandi grillaður kjúklingur og grænmeti á pönnu með lárperumauki og ýmsum sósum. Glóðargrilluð nautalund var smá í sniðum, en vel elduð, borin fram með bakaðri kartöflu og frönskum kartöflum í senn, svo og hinu endalausa jöklasalati staðarins.

Ostakaka var hversdagsleg og mjólkurhristingur hnausþykkur, hæfilegur og síður en svo minnisstæður endir á metnaðarlítilli og íhaldssamri matreiðslu. Kaffi var sæmilegt, svokallað espresso, stundum lapþunnt og stundum sterkt og gott.

Jónas Kristjánsson

DV