Húnaþing og Austurríki

Greinar

Reykvíkingar voru heppnir, að örnefndanefnd var ekki til, þegar nafn borgarinnar var valið á síðustu öld. Nafn hennar endar á “vík”, sem ekki er frambærileg ending á byggðarnafni að mati nefndarinnar, sem hefur amast við ýmsum nöfnum á sameinuðum byggðum.

Auk þess er Reykjavík stærri en sem nemur gamla örnefninu. Borgin hefur lengi náð til jarða á borð við Laugarnes og Korpúlfsstaði og nær nú einnig til jarða á borð við Brautarholt og Saurbæ á Kjalarnesi. Hún ætti eiginlega að heita Reykjavíkurognágrennisborg.

Svipuð er gæfa Kópavogsbúa og annarra, sem búa á stöðum, þar sem örnefndanefnd hefur ekki fengið að ráða nafngiftum. Verri er kostur Hvergerðinga, sem búa við vegpresta, sem vísa á “Hveragerðisbæ”, og annarra, sem hafa talið sig þurfa að hlíta sérvizku nefndarinnar.

Engin ástæða er til að slengja endingum á borð við sveit, bæ og borg aftan við heiti sameinaðra sveitarfélaga til að sýna fram á, að þau séu sveitarfélög, en ekki eitthvað annað. Engin ástæða er heldur til að gera harðar kröfur um nákvæmni í örnefnastöðu byggðanna.

Reykjavíkurborg er sjaldséð samheiti á opinberum skrifstofum borgarinnar og Kópavogskaupstaður er enn sjaldgæfara samheiti á opinberum skrifstofum kaupstaðarins. Langyrði af slíku tagi festast yfirleitt ekki í sessi og víkja fyrir því, sem lipurt er að nota í tali.

Ástæðulaust er fyrir þau sveitarfélög, sem sameinuð hafa verið undanfarin misseri, að taka athugasemdir örnefndanefndar bókstaflega. Það er fornleg sérvitringanefnd, sem er illa í stakk búin að veita leiðsögn um nöfn á nýjum fyrirbærum í byggðaþróun þjóðarinnar.

Húnaþing er frábært nafn á sameinuðum hreppum Vestur-Húnavatnssýslu, sem örnefndanefnd hefur hafnað. Ef Austur-Húnvetningar bera einhvern tíma gæfu til að sameinast, geta þeir kallað sig Húnabyggð. Vestur-Húnvetningar voru á undan og hafa fyrsta val.

Austurríki er ekki síður frábært nafn á sameinuðu sveitarfélagi Norðfirðinga, Eskfirðinga og Reyðfirðinga. Því hefur skotið upp í daglegu tali, sem er jafnan góðs viti um langlífi ólöggiltra heita. Auk þess er kostur, að sveitarfélag skeri sig úr öðrum í vali á enda nafns.

Árborg er frambærilegt nafn á sameinuðu sveitarfélagi Selfyssinga, Eyrbekkinga, Stokkseyringa og nágranna, þótt Flói hefði sem gamalt heiti á svæðinu verið djarfara og styttra val. Það eru embættismenn, sem hafa talað um Árborgarsvæðið, þegar þeir meina Flóann.

Örnefndanefnd er komin í verri ógöngur en mannanafnanefnd, sem þó hefur þrengra hlutverk, er felst í að gæta hagsmuna íslenzkrar tungu og hagsmuna þolenda nafngifta. Vandi örnefnanefndar væri nægur, þótt hann takmarkaðist við þess konar atriði.

Nöfn eins og Húnaþing, Austurríki og Árborg stríða hvorki gegn hagsmunum íslenzkrar tungu né hagsmunum þolenda nafnanna, fólksins í byggðunum. Ekki er ástæða til að hafa sérstaka nefnd til að amast við öðrum ágreiningsefnum í nöfnum nýrra sveitarfélaga.

Meðan lög og reglur gera ráð fyrir, að nöfn nýrra sveitarfélaga séu borin undir örnefndanefnd, er skynsamlegt að gera ráð fyrir, að um mistök sé að ræða, sem ástæðulaust sé að taka alvarlega. Síðan ber að afnema afskipti örnefndanefndar af nafngiftum nýrra sveitarfélaga.

Hraklegast er þetta mál fyrir örnefnanefnd, sem er ágæt til síns brúks, en er eins og fiskur á þurru landi, þegar hún fjallar um Húnaþing og Austurríki.

Jónas Kristjánsson

DV