Primavera

Veitingar

Á Primavera trufla góðir þjónar ekki samræður gesta með spurningum um, hvernig smakkist maturinn. Að vafningalausum ítölskum hætti er slíkt gefið mál, sem ekki er til umræðu, nema gestir vilji endilega ræða það að fyrra bragði. Sjálfstraust hússins er gott og næg innstæða fyrir því.

Matreiðslan á annarri hæð við Austurstræti hefur farið batnandi þrátt fyrir vaxandi vinsældir og tekur nú flestu fram hér á landi. Bezt og ódýrust er hún sem fyrr í hádeginu, þegar þríréttuð veizla með miklu úrvali rétta kostar ekki nema 1.350 krónur á mann.

Forréttir voru yfirleitt léttir og nútímalegir. Góður var grillaður og mjúkur maísgrautur, borinn fram með tómötum og fínni hráskinku, afbragðs matur. Enn betri var hvítlauksristaður smokkfiskur, sem bráðnaði næstum á tungu, með gulum baunum og tómötum. Bezti forrétturinn var undurmjúk og fínleg spínatbaka með blaðsalati, sannkallað meistaraverk.

Hefðbundnari og þyngri matreiðsla var í sumum aðalréttum, ekki þó riffluðum pastarörum með brokkáli og hvítlaukssósu, nákvæmlega rétt soðnum. Ekki heldur í snöggbökuðum og ljúfum þorski með kartöflustöppu, hvítlauk og miklu af kapers. En dæmigerður var ofnbakaður lambaskanki með kartöflustöppu, grænmeti og fínu rauðvínssoði, ljómandi ítalskur og skemmtilega gamaldags.

Fínlegur og bragðgóður var rommbúðingur með hindberjasósu og kryddleginni appelsínu. Þurr og góð var möndlukaka með þeyttum rjóma. Að kvöldi voru eftirréttir einnig góðir, einkum undurlétt döðlu- og karamellukaka með sýrðum rjóma, sem hæfði vel. Góð var einnig fínleg og lagskipt ostakaka með kakóþaki.

Þótt matreiðslan sé líka góð á kvöldin, reyndist mér hún meira gamaldags, skör lægri og auðvitað dýrari, um 3900 krónur þríréttað með kaffi. Þorskakinnar voru of þurrar og festust milli tanna, bornar fram með góðum maísgraut og rauðvínssósu. Mild og einföld var grænmetisbaka með mozzarella-osti. Beztur forrétta var smjörsoðinn spergill grannur með mildu beikoni og kapersblandaðri olífu- og ediksósu.

Að kvöldinu var bezti aðalrétturinn cannelloni pönnukaka vafin um kjúklinga- og villisveppahakk, borin fram með miklu blaðsalati. Góðir og meyrir voru grillaðir sjávarréttir, rækjur og smokkfiskur, á tréspjóti, með óhóflega miklu af brenndu raspi gestakokks frá Brescia. Gamaldags matreiðsla í raspi var einnig á annars frambærilegri kálfasteik með kapers og ansjósusósu í stíl millistríðsáranna.

Þetta er staður með stíl. Hátt er til lofts, bjart og fagurt í matsalnum, þægilegir armstólar við glugga og fullbólstraðir stólar innar. Veggstór risaspegill gerir öllum kleift að sjá alla og gefur staðnum snobbað uppagildi, enda eru hér viðskiptamálsverðir í röðum á kvöldi sem í hádegi. Yfir staðnum vakir endurprentun Vorsins eftir Sandro Botticelli.

Hvítt lín er á borðum í hádegi sem að kvöldi, olífur, balsamsósa og ilmandi volgt brauð. Og þetta líka fína útsýni til embættis- og iðnaðarmanna, sem skjótast í Ríkið handan götunnar til að reyna að bjarga deginum fyrir horn. Þeir vita ekki, hve öfundsverð við erum innan við gluggana á Primavera, sem höfum þegar bjargað okkar degi.

Jónas Kristjánsson

DV