Frægðarhvalur

Greinar

Koma háhyrningsins Keikós til Vestmannaeyja er skemmtilegur gerningur í fásinninu. Hann er sumpart jákvæður, ef íslenzkir málsaðilar hafa vit á að forðast að taka ábyrgð á framtíð söguhetjunnar í nýjum heimkynnum, sem geta hæglega orðið henni að aldurtila.

Lætin út af einum háhyrningi eru merkileg. Fólk er frá sér numið, einkum vestanhafs, en einnig hér á landi. Unnvörpum hafa menn viljað fórna fjármunum sínum og fyrirhöfn í hugsjónina um að frelsa nafngreinda háhyrninga, hvort sem þeir heita Willy eða Keikó.

Margt þetta fólk hefur ekki lyft litla fingri og mun ekki gera það til að hjálpa unglingum í klóm fíkniefnaneyzlu eða til að draga úr hungrinu í heiminum, sem leiðir fimmtíu börn til bana á hverjum klukkutíma. Vandamál heimabyggðar eða heimsbyggðar heltaka ekki fólk.

Munurinn byggist einhvers staðar djúpt í torskilinni undirvitund fólks og magnast síðan við skipulega herferð ímyndar- og markaðsfræðinga, sem hafa gífurlegar tekjur af upphlaupi á borð við flutning Keikós. Sérfræðingarnir leika á undirvitund fólks eins og hljóðfæri.

Almenningur hefur ætíð verið hafður að ginningarfífli. Munur nútíma og fortíðar á því sviði er fyrst og fremst, að þekking og tækni loddaranna hefur aukizt mun hraðar en þekking og tækni fólks til að verjast þeim. Keikó er bara brot af þessum ójafna leik.

Við sjáum hvarvetna í kringum okkur, að vara og þjónusta er ekki lengur seld á eigin forsendum, heldur á grundvelli upphlaups í kringum ímyndaða afslætti, tryggðarsamninga, gerninga af ýmsu tagi, vörumerki á fatnaði íþróttafólks og svo framvegis endalaust.

Hlutverk frægðarfólks fer vaxandi í sölumennsku. Afreksmenn bera auglýsingar framan og aftan á sér. Þeir mæla með vöru og þjónustu, sem þeir hafa ekki hugmynd um hver er og nota raunar ekki sjálfir. Og leiðitamur almenningur vill endilega kaupa þessa vöru.

Heilu tímaritin eru gefin út um ekkert annað en meint líf frægðarfólks, félagslíf þess og ástalíf, gerninga og merkisdaga. Aðrir fjölmiðlar ljósvaka og pappírs fylgja í humátt á eftir. Þetta er óhjákvæmilegt, af því að það selur betur en fréttir af fíkniefnaneyzlu og hungri.

Keikó er kominn í tölu frægðarfólks. Hann er nafn, sem fólk hefur áhuga á, rétt eins og það hefur áhuga á Björk og Davíð Oddssyni. Nafnlaus fíkniefnaunglingur í miðbænum og nafnlaust hungurbarn í Afríku eru hins vegar ekki í fókus. Það er Keikó, sem skiptir máli.

Pólitíkin dregur ekki síður dám af þessu. Þannig ræðst framtíð hvalveiða Íslendinga ekki af rannsóknum, sem sýna fram á, að stofnarnir þola töluverða veiði. Hún ræðst ekki heldur af rannsóknum, sem sýna fram á, að enn meiri tekjur er að hafa af hvalaskoðun.

Skoðanakannanir sýndu til skamms tíma, að Íslendingar vildu vekja upp hvalveiðar, þótt þær mundu stefna útflutningi sjávarafurða í mikinn háska og spilla tekjum af hvalaskoðun. Afstaða þjóðarinnar með hvalveiðum byggðist ekki á rökum, heldur tilfinningum einum.

Sama er uppi á teningnum, þegar Keikó er kominn til Íslands og fólk snýr við blaðinu. Það er ekki reikningsdæmi, heldur frægðarhvalur í Eyjum, sem veldur því, að fólk leggst gegn hvalveiðum. Keikó framkallar tilfinningar sem hindra endurnýjun íslenzkra hvalveiða.

Þótt niðurstaðan kunni að vera rétt, er forsendan röng. Sorglegt er, að fagmannlega markaðssettur tízkuhvalur skuli stjórna mikilvægri ákvörðun í lífi þjóðar.

Jónas Kristjánsson

DV